Linda Ben

Heilsteikt nautalund

Þessi jólin voru með örlítið öðru sniði þetta árið þar sem við fengum að njóta þeirra í Flórída í 28°C með fjölskyldu minni. Við leigðum okkur hús í vöktuðu hverfi sem heitir Champions Gate og get ég ekki mælt meira með þessu hverfi. Húsið okkar var nálægt klúbbhúsinu þar sem það tók aðeins 2 mín að labba í frábæran sundlaugagarð þar sem voru fullt af barnvænum sundlaugum sem voru allar upphitaðar. Það var líka góður veitingastaður í klúbbhúsinu og auðvitað sundlaugarbar með frábærum kokteilum. Jólin voru því örlítið lituð af þessum lífgæðum sem við vorum stödd í, ég hef allavega ekki átt jafn afslöppuð jól frá því að ég var krakki. Á aðfangadag bárum við fram ekta amerískan kalkún og opnuðum svo pakkana samkvæmt alíslenskum sið. Jóladagur byrjaði svo á léttu útihlaupi um hverfið, svo beint í ekta amerískan jólabrunch með öllu tilheryandi. Dagurinn fór svo í það að liggja á sundlaugarbakkanum og njóta. Um kvöldið bárum við fram heilsteikta nautalund borna fram með rjómasveppasósu, bökuðum aspas og bökuðum kartöflum, sýrðum rjóma, beikoni og rifnum osti.

IMG_3341

IMG_3348

IMG_3350

IMG_3359

IMG_3371

Heilsteikt nautalund:

Útbúið marineringu úr eftirfarandi hráefnum og nuddið henni á kjötið, látið marinerast við stofuhita í um það bil 6 klst.

  • 1/2 dl matarolía
  • 1 msk dijon sinnep
  • 1 msk ferskt rósmarín
  • nóg af svörtum pipar

Aðferð:

Setjið nautalundina á kolagrill og snúið á 30 sek fresti. Lokið kjötinu fullkomlega til þess að fá þetta dásamlega kolagrills bragð (líka hægt að steikja á pönnu). Bakað inn í ofni við 170 á bakka þangað til kjarnhitinn nær 53°C, látið standa í 10-15 mín við stofuhita og látið jafna sig.

Borið fram með rjómasveppasósu, bökuðum aspas og bökuðum kartöflum, sýrðum rjóma, beikoni og rifnum osti.

Rjómasveppasósan

  • 1/2 laukur
  • 1 bakki sveppir
  • 2 msk smjör
  • 3 hvítlauksrif
  • 500 ml matreiðslurjómi
  • vökvinn sem fellur til af nautakjötinu inn í ofninum
  • 2 stk nautakrafts teningar eða eftir smekk, fer eftir því hversu mikið af vökva fellur til af kjötinu.
  • 1 dl rauðvín
  • svartur pipar og salt eftir smekk
  • 1 msk gráðostur

Aðferð:

  1. Skerið laukinn fínt niður og steikið hann upp úr örlitlu smjöri.
  2. Skerið sveppina niður og steikið þá í sama potti en bætið restinni af smjörinu út á, steikið þangað til mesta vatnið af sveppunum er gufað upp.
  3. Pressið þrjú hvítlauksrif út á og steikið létt í 1-2 mín, hellið svo rjómanum út á. Bætið kraftinum sem féll af nautakjötinu út í sósuna ásamt rauðvíninu, smá pipar og salt og gráðostinum.
  4. Látið sósuna sjóða svolítið og bætið svo meira af kjötkrafti, salt og pipar, rauðvíni og gráðosti eftir smekk.

Bakið kartöflurnar í ofni, steikið beikon og skerið það svo niður. Skerið toppinn af bökuðu kartöflunni og setjið sýrðan rjóma, rifinn ost og beikon yfir.

Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben

Ég minni þig á að fylgjast með mér á Instagram en þar er ég oft að elda og baka og sýni “step-by-step” frá matseldinni. Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!

IMG_3155

Njóttu vel!

Ykkar, Linda Ben

Leave a Review

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

1 2 3 4 5