Linda Ben

Einfalt jólaboð í Julefrokost stíl

_MG_2595

Ég hélt smá jólaboð fyrir stuttu og tók þannig örlítið forskot á sæluna. Ég væri að plata ef ég segði að þú kæri lesandi hefðir ekki örlítil áhrif á þá ákvörðun að hafa boð svona snemma í ár. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að reyna finna góðar og þægilegar lausnir af hinum ýmsu hlutum eins og jólaboði. Deila svo hugmyndunum með ykkur um hvernig hægt er að haga lífinu og gera það vonandi örlítið þægilegra og skemmtilegra.

_MG_2614

Julefrokost hefðin hefur alltaf heillað mig, Danir eru svo oft með þetta þegar kemur að einföldum og skemmtilegum veislum. Þó svo að það sé nú alveg hægt að hafa mikið fyrir Julefrokost þá ákvað ég að reyna taka brot af því besta af þeirri hefð og skella í ofur einfalt og skemmtilegt jólaboð.

_MG_2654

Það sem ég hafði í huga þegar ég skipulagði þessa veislu var að hafa hlutina einfalda, fljótlega, bragðgóða og fallega. Svolítið svipuð pæling og ég var með fyrir Þakkargjörðahátíðina en þið getið lesið þá færslu hér. Þessa rétti er kjörið til að hafa hvort sem jólaboðið er um hádegi, seinnipart eða um kvöldmatarleytið.

_MG_2603

Jólaskreytingin sem ég var með á veggnum vakti mikla lukku en kertastjakarnir eru í eigu systir minnar. Vegna mikilla fyrirspurna vil ég taka fram að þeir eru úr framleiðslu Menu og heita POV circle, ég hef þó enga hagsmuni að gæta með því að segja ykkur það. Við systurnar kolféllum báðar fyrir þeim þegar við sáum þá fyrst. Ég ákvað að skreyta þá með Tuja greinum og könglum sem ég festi á stjakana með vír.

_MG_2617

Réttirnir eru allir kaldir og tilvalið til þess að narta í lengi og njóta. Jólaglöggið var þó heitt og afskaplega jólalegt. Ákavíti er órjúfanleg hefð Julefrokost og því lét ég það að sjálfsögðu ekki vanta, þó svo að ég hafi líka boðið upp á Stellu Artois líka fyrir þá sem vildu.

_MG_2612

Á heildina litið var þetta hreint út sagt æðislegt kvöld og alveg dásamlegt að halda svona afslappað jólaboð. Allir gengu gjörsamlega afvelta út um hurðina og jólastemmingin í hámarki.

_MG_2625

_MG_2640

_MG_2635

Það sem ég bar fram var eftirfarandi:

  • Hátíðarskinka skorin í sneiðar
  • Laufabrauð
  • Kartöflusalat (uppskrift hér fyrir neðan)
  • Rauðkál
  • Grænar baunir
  • Hátíðar síld
  • Hreindýra pate
  • Rúgbrauð og flatkökur
  • Áleggs bakki (nánar lýst hér fyrir neðan)
  • Vanillu smákökur með súkkulaði
  • Piparkökur
  • Kransakökustykki
  • Jólaglögg, Ákavíti og Stella Artois (jólaglögg uppskrift hér fyrir neðan)

_MG_2606

Kartöflusalat

  • 1 kg kartöflur
  • 2 dl majónes
  • 2 msk sýrður rjómi
  • 1 msk heilkorna sinnep
  • 1 dl ferskt dill (meira sem skraut)
  • Salt og pipar
  • Hálfur rauðlaukur fínt saxaður (nokkrar grófar lengjur sem skraut)

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflunar, flysjið og skerið í bita.
  2. Blandið saman majónesi, sýrðum rjóma, sinnepi, dilli og rauðlauk. Bætið kartöflunum svo útí svo þær þekjist allar vel.
  3. Smakkið til með salti og pipar.
  4. Skreytið með fersku dilli og rauðlauk.

_MG_2617

Á bakka

  • Graflax og graflaxsósa
  • Soðin egg
  • Gúrkur
  • Tómatar
  • Rauðlaukur
  • Sítrónusneiðar
  • Trönuber
  • Skreytt með fersku dilli

_MG_2608

Ég vildi hafa jólaglöggið frekar létt, það er að segja, einungis með rauðvíni en ekki sterkum vínum.

Létt jólaglögg

  • 1,5 l vatn
  • 1 appelsína
  • 1 sítróna
  • 3 kanilstangir
  • 1 msk negulnaglar
  • 1 tsk heilar kardimommur (kremja áður en þær eru settar í pottinn)
  • 1 tsk engifer
  • 1 dl púðursykur
  • 750 ml rauðvín
  • Skreytt með sítrónu sneið, kanilstöng og nokkrum kardimommum og negulnöglum.

Aðferð:

  1. Setjið vatn í pott og bætið appelsínusneiðum, sítrónusneiðum, kanilstöngum, negulnöglum, heilum kardimommum, engifer og púðursykri út í. Látið sjóða á lágum hita í 30 mín.
  2. Slökkvið undir pottinum og bætið rauðvíninu útí, blandið saman og berið fram í fallega skreyttum glösum.
  3. Hægt er að hita jólaglöggið aftur en passa þarf að sjóða það ekki.

_MG_2634

Ég vona að þessar humyndir muni nýtast ykkur vel yfir hátíðarnar.

Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben

Ég minni þig á að fylgjast með mér á Instagram en þar er ég oft að elda og baka og sýni “step-by-step” frá matseldinni. Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!

 

Ykkar, Linda Ben

Leave a Review

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

1 2 3 4 5