Engifer og sítrónu smákökubitar

Þessa uppskrift fann ég í gömlu uppskriftabókinni hennar mömmu sem hún skrifaði í þegar ég var ennþá ófædd. Ég alveg elska það að fletta í gegnum gömlu uppskriftabókina hennar mömmu og rifja upp allar gömlu góðu uppskriftirnar. Ég ætla mér að deila með ykkur nokkrum af þeim uppskriftum fyrir jól og vonandi hafið þið jafn gaman af því og ég.

Það skemmtilegasta við að fletta svona gömlum bókum er að rifja upp allar minningarnar sem tengjast uppskriftunum, rifja upp hvenær kökurnar voru bakaðar seinast og hver var með manni til dæmis.

Það er annað sem mér þykir svo skemmtilegt að sjá er hversu mis kámugar síðurnar eru í bókinni, vel kámugar síður þýða auðvitað rosalega góð uppskrift sem hefur verið gert oft og mörgum sinnum á meðan þær hreinni hafa verið bakaðar sjaldnar.

Inn á milli sé ég svo myndskreytingar sem ég og systir mín höfum teiknað á meðan við vorum að hjálpa mömmu að baka þegar við vorum litlar sem gerir þessa bók að algjörum gullmola.

Þessi uppskrift af engifer og sítrónu smákökubitum er ein af þessum kámugu í bókinni og því staðfest að hér er um góða smákökuuppskrift að ræða!

Kökurnar eru stökkar að utan og seigar að innan, en lykillinn til þess að fá áferðina akkurat rétta er að geyma deigið eins lengi inn í ísskáp og tími gefst til, helst yfir sólahring, en tveir tímar ættu þó að nægja sem vilja ekki bíða svo lengi.

Engifer og sítrónu smákökubitar

Engifer og sítrónu smákökubitar

 • 200 g smjör
 • 200 g sykur
 • 1 ¼ dl rjómi
 • 1 ¼ dl síróp
 • 400 g hveiti
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk engiferkrydd
 • 2 msk safi úr sítrónu

Aðferð:

 • Þeytið smjörið og sykurinn saman. Bætið út í rjóma og sírópi og hrærið saman við.
 • Setjið hveiti, matarsóda og engifer í skál, sigtið ofan í sykur/smjör blönduna og hrærið létt saman við þar til allt hveitið er farið inn í deigið, blandið sítrónusafanum saman við (hrærið eins lítið og hægt er).
 • Setjið deigið í ísskáp og kælið í minnst 2 klst.
 • Kveikið á ofninum og stillið á 200°C og undir+yfir hita.
 • Skiptið deiginu í litlar kúlur og raðið á ofnplötu, pressið kúlurnar niður með gaffli, bakið kökurnar í 7-8 mín inn í ofni eða þangað til þær eru orðnar fallega gylltar.

Engifer og sítrónu smákökubitar

Ef þú prófar þessa uppskrift, þá þætti mér svo vænt um að heyra hvernig smakkast! Skildu endilega eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben

Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!

Ykkar, Linda Ben

Leave a Review

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

1 2 3 4 5