Þessar karamellur eru ROSALEGAR! Rosalega góðar, einfaldar, sjúklega ávanabindandi og þær allra bestu sem ég hef smakkað (já, það má segja svona þó maður gerir hlutina sjálfur þegar það á virkilega við). Karamellan sjálf er mjúk, seig og bráðnar upp í manni.
Það er einfaldara að búa til karamellu en margir halda, það þarf til dæmis ekki hitamæli til að gera þessa. Þegar karamella er útbúin þá þarf að fylgja nokkrum reglum, þá gengur þetta eins og í sögu.
Það sem þarf að gera er að fara mjög varlega, passa að hitinn dreifist vel um pottinn og passa að sykurinn brenni ekki. Mér finnst best að setja sykurinn í stóran pott og á stóra hellu, hafa hitann lágann og hræra nánast ekkert í sykrinum á meðan hann bráðnar. Það má aldrei líta af pottinum á meðan karamellan er útbúin, það kveiknar í sykrinum ef hann hitnar of mikið. Þegar þú sérð að sykurinn er byrjaður að dökkna skelltu þá litlu smjöri út í sykurinn og það stoppar brunann, hrærðu svo smjörinu saman við sykurinn. Ef karamellan endar kekkjótt er alltaf hægt að sigta hana. ALDREI smakka karamelluna á meðan hún er heit eða sleikja áhaldið sem þú notar, karamella er GRÍÐARLEGA heit og þú munt brenna þig illa.
Hockey Pulver Karamellur
- 200 g sykur
- 100 g smjör
- 60 ml rjómi
- Salt lakkrís nammiduft
Aðferð:
- Sykurinn er bræddur í stórum potti við lágan hita.
- Smjörið er skorið í 6 bita og einn biti settur út í sykurinn í einu og hrært vel á milli, lækkið hitann.
- Rjómanum er hellt út á sykurblönduna í litlum skömmtum og hrært vel á milli. Látið karamelluna sjóða í um 1 mín.
- Slökkvið undir pottinum og setjið smjörpappír í lítið eldfast mót (15×25 cm eða álíka).
- Hellið ½ dós af hockey pulver út í karamelluna og blandið saman. Hellið karamellunni í eldfasta mótið og hellið restinni af hockey pulverinu yfir karamelluna.
- Leyfið karamellunni að stirna, gott að setja hana inn í ísskáp til að flýta ferlinu. Takið karamelluna úr smjörpappírnum og setjið á skurðarbretti.
- Skerið endana af karamellunni sem láu upp við eldfasta mótið. Skerið svo karamelluna fyrst í lengju og svo í kassa, persónulega finnst mér best að hafa hvern bita frekar lítinn en það er smekksatriði.
- Setjið lakkrís nammiduft í skál og veltið bitunum upp úr duftinu þannig að hver biti þekist vel (þægilegra að setja bara nokkra bita ofan í skálina í einu).
Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ég minni þig á að fylgjast með mér á Instagram en þar er ég oft að elda og baka og sýni “step-by-step” frá matseldinni. Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben