Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stofna LindaBen.is?
Ég kláraði háskólanámið mitt á sama tíma og ég byrjaði í fæðingarorlofi. Ég hafði verið frekar óhamingjusöm í náminu mínu og áttaði mig á því þegar því lauk að mig langaði ekki að starfa við það sem ég hafði lært. Ég nýtti mér fæðingarorlofið til þess að læra að vera hamingjusöm aftur. Ég einbeitti mér að því sem mér þótti skemmtilegast, naut hverrar einustu sekúndu með með syni mínum og skapaði kræsingar í eldhúsinu. Ljósmyndun hefur einnig alltaf verið áhugamál mitt og því fór ég fljótt að taka myndir af því sem ég var að baka og elda. Ég fann að þarna lá mín ástríða, ég var virkilega hamingjusöm! Ég stofnaði mitt fyrsta blogg árið 2014 en var svo fljótt fengin til þess að skrifa fyrir aðra miðla. Árið 2016 fannst mér ég búin að finna mína rödd í bloggheiminum og stofnaði LindaBen.is.
Hvað elskaru mest við það að skrifa á síðunni þinni?
Ég elska það að veita öðrum innblástur. Hvort sem það er með góðum mat sem er borin fallega fram, ráðum fyrir heimilið og stíliseringu þess eða hreinlega bara að vera jákvæð. Ég elska það þegar ég fæ skilaboð frá fólki þegar það prófar uppskrift sem það elskar. Það er ekkert betra! Einnig er stór ástæða fyrir því að ég skrifa uppskriftir á þessa síðu, er að mig langar að hvetja fólk til njóta hversdagsleikans. Eitthvað sem allir þurfa að gera á hverjum degi er að borða, afhverju ekki að njóta þess að elda, gera það á skemmtilegan hátt? Hvað sem það nú þýðir fyrir þig, ég veit hvað það þýðir fyrir mig: góð tónlist, smá nart á meðan eldað er og jafnvel eitt rauðvínsglas ef það er stemming fyrir því. Ég hvet þig til þess að finna út hvað gerir eldamennskuna skemmtilega fyrir þig!
Hvaða ráð myndir þú gefa þeim sem langar að byrja með sitt eigið blogg?
Finndu hvað það er sem þér finnst virkilega skemmtilegt, hvað er það sem gerir þig einstaka/n og hvaða skilaboðum viltu koma á framfæri? Settu það svo fram á smekklegan og aðgengilegan hátt.
Hvernig myndavél og linsu notar þú?
Ég keypti mér myndavél á meðan ég var að ferðast í Bandaríkjunum og er mjög standard myndavél. Hún heitir Canon EOS rebel t5i og ég nota 50 mm linsuna mína mest.
Hvaða ráð gefur þú þeim sem vilja taka fallegri myndir?
Ég hvet fólk eindreigið til þess að taka myndir í fallegri birtu, það gerir gæfumuninn. En númar eitt, tvö og þrjú er æfingin, finndu út hvaða sjónarhorn þér þykir fallegust og finndu þinn eigin stíl.
Hvar finnur þú leirtauið þitt?
Ég kaupi leirtau mikið erlendis. Það er ekki óalgengt að ég taki með mér allavega 2-3 diska heim úr H&M home og ZARA home, þar er yfirleitt hægt að finna ódýra og fallega muni sem koma vel út á mynd.
Hver er uppáhalds maturinn þinn?
Það breytist mjög ört, en yfirleitt er ég algjör sökker fyrir einföldum mat þar sem hráefnin njóta sín alveg til fulls. Oftar en ekki þýðir það einfaldur pastaréttur.
Hver eru uppáhalds hráefnin þín til að elda úr?
Hvítlaukur og ferskar kryddjurtir þegar ég er að elda en þar sem ég elska að baka verð ég að segja smjör, sykur og hveiti!
Hverjar eru uppáhalds uppskriftirnar þínar?
Það er alveg ómögulegt að gera upp á milli, þegar ég hef reynt líður mér eins og ég sé að gera upp á milli barnanna minna. Engin uppskrift kemur hér inn á síðuna nema ég elski hana. En ég skal þó viðurkenna að ef myndatakan af réttinum tókst vel, þá er ég sérstaklega stolt af uppskriftinni.
Hvaðan færð þú innblástur?
Ég elska Instagram og er að fylgja alveg virkilega hæfileikaríku fólki þar sem veita mér ógrynni af innblæstri á hverjum einasta degi.