Linda Ben

Veislu marsípanterta með ljúffengri fyllingu

Recipe by
| Servings: 30x40 cm kaka

Ég fékk þann heiður að hafa yfirumsjón yfir veitingunum í skírnarveislu systurdóttur minnar. Ég hef sjaldan fengið jafn skemmtilegt verkefni og skemmti ég mér vandræðalega vel en auðvitað var það líka krefjandi. Þar sem ég elska að skoða myndir af mat og kökum á netinu fór hausinn á mér alveg á flug, það rifjuðust upp fyrir mér ýmsar góðar hugmyndir, sem mig langaði að prófa.

IMG_7605

Eitt sem mér hefur alltaf langað að baka en ekki haft tilefni til er Prinsessu kaka. Ég sá þessa fullkomnu marsípan tertu í uppskriftarbók sem maðurinn minn gaf mér fyrir einhverju síðan og ég nánast slefaði við tilhugsunina um þessa tertu. Hvítir svampbotnar, hindberjasulta og “pastry cream” rjómi á milli, svo auðvitað toppuð með marsípan. Það kom ekki annað til greina en að gera þessa köku.

Ég ákvað að skreyta kökuna með Omnom súkkulaði plötum og maltkúlum. Mér finnst algjör snilld að nota þessa tækni við að skreyta kökur þar sem það þarf enga sérstaka skreytingar hæfileika og tekur nánast enga stund. Omnom súkkulaðið er nefninlega svo fallegt, muntsrið í því er listaverk útaf fyrir sig. Ég einfaldlega braut 4 plötur af mínu uppáhalds Omnom súkkulaði nokkuð tilviljanakennt, en reyndi þó að hafa það þannig að línurnar í súkkulaðinu nutu sín. Svo raðaði ég súkkulaðinu upp að hliðum kökunnar þannig það fyllti hliðarnar alveg.

_MG_7437

Ég vil að þið lærið af mínum mistökum og því ætla ég að koma hreint út. Kakan misheppnaðist! Ég skellti í kökuna alveg 100% eftir uppskrift, ætlaði að geyma hana í 1 ½ sólahring í ísskáp sem er fullkomlega eðlilegur geymslutími fyrir flestar kökur lokaðar með marsípan. Því miður þegar ég opnaði ísskápinn daginn eftir hafði rjóminn brætt marsípaninn og kakan því ljót og ónýt. Uppskriftin sem ég notaðist við hefði líklegast verið fullkomin ef ég hefði borðað kökuna um leið og hún var tilbúin, en ég veit því miður ekki undir hvaða kringumstæðum maður skellir í marsípantertu og borðar hana strax þar sem þetta eru yfirleitt veislu tertur. Ég gerði kökuna aftur og aðlagaði uppskriftina þannig að það sé hægt að geyma hana í ísskáp í 2 daga fyrir veislu. Kakan (nr. 2) heppnaðist fullkomlega og því deili ég hér uppskriftinni að minni eigin útfærslu af prinsessu köku!

_MG_7539

Það sem þarf er:

  • Stór kökuplatti sem heldur 30×40 cm köku
  • 3x hvítir svampbotnar
  • 1 krukka hindberjasulta
  • pastry cream
  • 600 ml rjómi
  • 300 g smjör
  • 300 g flórsykur
  • 2 msk rjómi
  • Marsípan u.þ.b. 60×80 cm, hægt að kaupa útflattan t.d. í Mosfellsbakaríi
  • Skreyingar, ég notaði 4 plötur af Omnom súkkulaði, nokkrar Omnom malt kúlur og brúðarslör.

Hvítur svampbotn (uppskrift fyrir 1 botn, það þarf 3 í þessa köku)

  • 25 g brætt smjör, kælt
  • 4 egg
  • 120 g sykur
  • 120 g hveiti
  • klípa af salti
  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Það þarf 3 svona botna í eina stóra tertu, þyngdirnar hér fyrir ofan eru miðaðar við 1 botn þar sem best er að baka einn í einu.
  2. Stillið ofninn á 180°C.
  3. Bræðið smjörið (hér er hægt að bræða smjör í allar 3 uppskriftirnar saman)
  4. Hrærið saman egg og sykur mjög vel þangað til að þegar þeytarinn er tekinn upp og deigið látið leka niður í skálina þá sést hvernig deigið sem lekur aðlagast ekki strax deiginu í skálinni.
  5. Blandið saman hveiti og salti í eina skál en smjöri og vanilludropum í aðra skál.
  6. Í ofnskúffu setjið smjörpappír, brjótið hann í horninn þannig smjörpappírinn liggur þétt í skúffunni.
  7. Sigtið hveitiblönduna út í eggjablönduna og hrærið virkilega varlega saman við með sleikju, passið að losa ekki um loftið í deiginu.
  8. Hellið smjörs-vanilludropa blöndunni út í eggjablönduna meðfram hliðinni á skálinni, blandið mjög varlega saman við eggjablönduna með sleikju og passið að losa ekki um loftið í deiginu.
  9. Hellið deiginu varlega um alla ofnskúffuna, dreifið úr með sleikjunni til að séu engin göt.
  10. Bakið í um það bil 7-9 mín.
  11. Endurtakið þetta fyrir hina tvo botnana.

Pastry cream fylling

  • 1000 ml nýmjólk
  • 1 vanillustöng, notið fræin.
  • 2 egg
  • 2 eggjarauður
  • 200 sykur
  • 60 kornsterkja
  • 50 g smjör
  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hellið mjólkinni í frekar stóran pott og hreinsið fræin úr vanillustönginni, setjið fræin í mjólkina og hitið hana að suðu.
  2. Gerið smjörið tilbúið, skeri það í 4 búta.
  3. Í hrærivélarskál setjiði egg, sykur og kornsterkju, hrærið öllu vel saman.
  4. Þegar mjólkin er alveg að fara sjóða, hellið þá 1/3 af mjólkinni varlega saman við eggjablönduna með hrærivélina í gangi. Þegar allt er orðið blandað saman helliði þá mjólkur-eggjablöndunni út í pottinn aftur.
  5. Kveikið undir pottinum og hrærið stanslaust í blöndunni. Hún mun byrja að þykkjast allt í einu, blandan verður þá dekkri og áferðin mun þykkari, þegar þetta gerist haldiði áfram að hræra en slökkvið strax undir pottinum.
  6. Hrærið smjörið saman við einn bút í einu og saltið.
  7. Hellið blöndunni í stórt fat og þegar mesti hitinn er farinn getiði lokað fatinu með plastfilmu.
  8. Blandað geymist vel í ísskáp í nokkra daga.

Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu hana á Instagram með #lindulostæti

Fylgistu með á Instagram!

_MG_7421

Samsetning

  • Þeytið 600 ml rjóma og hrærið hann saman við pastry cream-ið, skiptið blöndunni í tvennt.
  • Setjið fyrsta svampinn á kökuplattann, smyrjið með þunnu lagi af hindberjasultu, setjið annan hlutann af pastry cream rjómanum á kökuna og passið að það sé allstaðar jafn þykkt.
  • Setjið næsta svamp á og endurtakið.
  • Þeytið saman smjör og flórsykur þangað til létt blanda mynast. Setjið rjómann út í og hrærið vel saman við þangað til mjúkt og létt krem myndast. Smyrjið 1/3 af kreminu á seinasta svampbotninn.
  • Leggið svampbotninn með kreminu ofaná á kökuna, smyrjið afganginn af kreminu á hliðar kökunnar til þess að loka pastry cream-ið vel inni.
  • Rúllið marsípaninn út, sléttið úr honum eins vel og hægt er, rúllið honum gróflega upp aftur (hér er gott að fá einhvern til að hjálpa sér) og rúllið honum varlega yfir kökuna aftur.
  • Sléttið úr marsípaninum á kökuna og mótið hornin.
  • Ég valdi að skreyta hliðar kökunar með Omnom súkkulaði, Omnom súkkulaði maltkúlum og brúðarslöri. Ég einfaldlega braut 4 plötur af mínu uppáhalds Omnom súkkulaði nokkuð tilviljanakennt, en reyndi þó að hafa það þannig að línurnar í súkkulaðinu nutu sín. Svo raðaði ég súkkulaðinu upp að hliðum kökunnar þannig það fyllti hliðarnar alveg. Svo setti ég nokkrar litlar greinar af brúðarslöri í hornin.

IMG_7605

Ég vona að þessi uppskrift muni nýtast ykkur vel!

Ykkar, Linda Ben

Leave a Review

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

1 2 3 4 5