Mér finnst oft vanta góða eftirrétti sem þarf ekki að gera samdægurs. Það er svo gott að gera eftirrétinn í ró og næði daginn áður eða jafnvel nokkrum dögum áður. Þessi ostakaka er einmitt þannig. Svo þarf ekkert að vera lista bakari til þess að gera þessa köku unaðslega góða og fallega. Súkkulaðihjúpurinn gerir það að verkum að smávægilegar sprungur sem geta komið hverfa og gerir kökuna ómótstæðilega.
Með uppskriftinni leyfi ég nokkrum vel völdum myndum af heimilinu mínu og borðskreytingunni fylgja.
Amerísk ostakaka með brownie botni og súkkulaðihjúp
Brownie botn:
- 115 g smjör
- 1 og 3/4 dl súkkulaði
- 2 og 1/3 dl sykur
- 2 egg
- 60 ml mjólk
- 2 og 1/3 dl hveiti
Ostakaka:
- 1200 g rjómaostur við stofuhita
- 4 og 2/3 dl sykur
- 1 og 1/3 dl hveiti
- 5 egg
- 200 ml sýrður rjómi (1 dós)
- 1 tsk vanilludropar
Súkkulaðihjúpur:
- 2 og 1/2 dl rjómi
- 350 g súkkulaði
Aðferð:
Brownie botn:
- Kveikið á ofninum og stillið á 175ºC.
- Smyrjið 22 cm smelluform.
- Bræðið saman smjör og súkkulaði í potti yfir lágum hita.
- Slökkvið á hitanum og hellið sykrinum út í blönduna, hrærið reglulega í og látið kólna svolítið (5-10 mín)
- Í hrærivélaskál blandið saman mjólk og eggjum. Hellið saman við súkkulaði-smjör blöndunni og hrærið vel.
- Blandið hveitinu varlega saman við og hellið í formið. Bakið í 25 mín.
Ostakaka:
- Byrjað er á því að kveikja á ofninum og stilla á 180ºC.
- Næst er komið að því að hræra rjómaostinn þangað til hann verður mjúkur.
- Í aðra skál er svo hveiti og sykri hrært saman og sett 1 msk í einu af blöndunni út í rjómaostinn og hrært rólega saman.
- Svo er sýrðum rjóma og vanilludropum bætt út í deigið og hrært rólega saman.
- Einu eggi er svo bætt út í í einu en aðeins hrært rólega þangað til það hefur blandast saman við og alls ekki lengur. Mikilvægt er að hræra eins lítið og hægt er því við viljum ekki fá loftmikla blöndu.
- Deiginu er svo hellt ofan í smelluformið sem hefur verið klætt með álpappír. Það er gert til þess að hindra að vatn komist að kökunni en kakan er bökuð í vatnsbaði inn í ofni.
- Þegar smelluformið er vel einangrað er það sett í djúpa ofnskúffu og sjóðandi heitu vatni hellt ofan í ofnskúffuna þangað til það nær upp helminginn af smelluforminu. Ástæðan fyrir því að við viljum baka kökuna í vatnsbaði er til þess að halda jöfnu hitastigi á kökunni á meðan hún bakast, annars er hætta á að við fáum áferð á kökunni eins og á eggjahræru.
- Kakan er bökuð við 180ºC í 45 mín. Hitinn er svo lækkaður niður í 160ºC og kakan bökuð áfram í 30 mín.
- Kakan er svo látin vera áfram inn í ofninum í klukkutíma með slökkt á ofninum.
- Kakan er svo kæld í ísskáp í minnst 6 tíma en hellst yfir nótt.
Súkkulaðihjúpur.
- Setjið súkkulaðið og rjóma í skál og hitið í örbylgju stutta stund í einu og hrærið alltaf á milli þangað til það hefur blandast vel saman.
- Leyfið súkkulaðinu að kólna svolítið og dreifið því svo yfir kökuna.
- Ég ákvað að skreyta kökuna með kopar lakkrískúlum frá Johan Bulov og makkarónukökum frá Makkaronur.is með metal áferð fylltar með hvítu súkkulaði.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben
Category: