Apabrauð er virkilega djúsí kanilbollubrauð. Brauðið byggist upp af litlum kanilhjúpuðum bollum sem eru bakaðar allar saman í kökuformi. Áður en bollurnar eru bakaðar hellir maður smjöri ofan í kökuformið sem gerir bollurnar alveg einstaklega djúsí og svakalega góðar!
Apabrauð
- 350 ml mjólk
- 12 g þurrger
- 50 g sykur
- 80 g smjör
- 2 lífræn egg frá Nesbúu
- 650 g Kornax hveiti
Kanilhjúpur
- 200 g smjör (skipt í 2 hluta og notað á 2 stöðum í uppskriftinni)
- 250 g sykur
- 1 msk kanill
- 130 g púðursykur
Glassúr
- 150 g flórsykur
- 3-4 msk mjólk
Aðferð:
- Hitið mjólkina þar til hún verður u.þ.b. fingurvolg. Hellið í skál ásamt sykri og geri, blandið saman.
- Bræðið smjörið og leyfið því að kólna örlíitið.
- Setjið egg, smjör og hveitið ofan í skálina með gerblöndunni og hnoðið öllu vel saman í 4-5 mín. Deigið á að vera þétt en ennþá svolítið klístrað.
- Setjið deigið ofan í smurða skál, setjið hreint viskastykki yfir og leyfið því að hefast á hlýjum stað (ég stillii ofninn á 40°C, undir og yfir hita og set skálina þar inn) í u.þ.b. 1,5 – 2 klst eða þar til deigið hefur meir en tvöfaldast í stærð.
- Kveikið á ofninum og stillið á 175°C, undir og yfir hita. Setjið bökunarggrind inn í ofninn og setjið hana frekar neðarlega inn í ofninn.
- Útbúið kanilhjúpinn með því að bræða allt smjörið, skiptið smjörinu í tvær skálar. Bætið púðursykri ofan í aðra skálina með smjöri og geymið til hliðar.
- Blandið saman sykri og kanil í hreina skál.
- Smyrjið kökuuform með gati í miðjunni. Kökuformið þarf að vera frekar stórt, ég notaði form sem er 23 cm í þvermál og 10 cm hátt.
- Kýlið loftið úr deiginu, setjið vel af hveiti á borðið og deigið ofan á hveitið. Skiptið deiginu í 8 hluta. Skiptið svo hverjum hluta í 5 litla bita þannig að þið endið með 40 litla bita af deigi.
- Útbúið kúlu úr hverjum bita og dýfið kúlunni fyrst ofan í skálina með smjörinu, þannig að smjörið þekji alveg kúluna og setjið hana svo ofan í kanilsykurinn og hjúpið hana alveg í kanilsykri. Setjið ofan í smurt kökuuformið. Endurtakið fyrir allt deigið.
- Takið skálina með smjörinu og púðursykrinum og hellið yfir deigið í kökuforminu.
- Bakið í 35-45 mín eða þar til toppurinn er byrjaður að brúnast örlítið.
- Leyfið brauðinu að kólna svolítið í forminu og útbúið glassúrinn á meðan.
- Setjið flórsykur í skál, setjið fyrst 3 msk af mjólk út í skálina og hrærið saman, ef glassúrinn er mjög stífur, setjiði þá 1/2 msk af mjólk út í og hrærið. Glassúrinn á að vera þykk fljótandi.
- Leggið kökudisk öfugan á formið, hvolfið því þannig að apabrauðið lendi á kökudiskinum og takið kökuformið frá.
- Hellið glassúrnum yfir brauðið.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar
Category: