Bakaði osturinn hennar Huldu – Bakaður camembert í fati með hráskinku, pistasíuhnetum, timjan og heitu hunangi.
Ég fékk svo ótrúlega góðan bakaðan ost hjá Huldu vinkonu um daginn. Ég fékk hana til að deila með mér uppskriftinni og þar sem mér finnst þetta svo ótrúlega sniðugt og gott þá deili ég henni að sjálfsögðu líka með ykkur. Hulda fékk þessa hugmynd af Tiktok þar sem svo margar hugmyndir fæðast en svona með aðeins öðrum snúningi en upprunalega uppskriftin.
Í staðinn fyrir að setja camembertinn heilann í lítið fat, er hann skorinn niður og settur í stórt eldfastmót. Svo er allskonar gúmmulaði dreift yfir. Hér er ég með serrano skinku, pistasíuhnetur, timjan og heitt hunang. Svo er osturinn bakaður inn í ofni í 20 mín eða þangað til osturinn hefur bráðnað og aðeins byrjaður að gyllast. Osturinn er svo borinn fram með Finn Crisp snakki með sour cream and onion en það passar fullkomlega með þessum osti. Stökkt og bragðmikið, þunnt og inniheldur heilkorn.
Með því að baka ostinn svona verður hver einasti biti af ostinum hreint lostæti.





Bakaði osturinn hennar Huldu – Bakaður camembert í fati
- 2 stk camembert ostar
- 60 g serrano skinka
- U.þ.b. 1 lúka pistasíuhnetur
- Ferskt timjan
- U.þ.b. 1 msk heitt hunang (hægt að gera sjálf með því að setja 1 msk þurrkað chillí í 1 dl hunang, eða kaupa tilbúið)
- Finn Crisp snakk með sour cream and onion bragði
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 180°C, undir og yfir hita.
- Skerið camembert ostana í bita (10-12 bitar hver ostur) og raðið í eldfast mót (fallegt að raða breiðu endunum sikk sakk þannig að það er mjór endi hliðiná breiðum enda).
- Skerið serrano skinkuna niður í bita og dreifið henni um fatið. Dreifið einnig pistasíuhnetum, timja og heitu hunangi yfir.
- Bakið í 20 mín eða þar til osturinn hefur bráðnað og aðeins byrjaður að gyllast.
- Berið fram með Finn Crisp snakki
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar











