Mangó Chutney kjúklingaréttur var eitt það fyrsta sem ég lærði að elda. Með tímanum hef ég þróað hann og náð að gera hann að mínum eigin. Þessi kjúklingaréttur er æðislega góður og slær alltaf í gegn.
Mér finnst alltaf betra að nota brún eða villt hrísgrjón. Þau eru örlítið stífari undir tönn sem gerir réttinn mikið betri auk þess að gera matinn heislusamlegri.
Besti Mangó Chutney Kjúklingarétturinn, uppskrift:
- 4 kjúklingabringur
- salt og pipar
- 2 dl hrísgrjón
- 4 dl vatn
- 2,5 dl sjóðandi vatn
- 1 stk kjúklingakraftur
- 2,5 dl matreiðslurjómi
- 1 krukka mangó chutney
- 1 msk karrý
- 1 msk tandoori
Aðferð
- Stillið ofninn á 200°C.
- Byrjað er á því að setja 2 dl af hrísgrjónum í pott ásamt 4 dl af vatni og þau soðin þangað til þau byrja að mýkjast.
- Á meðan verið er að bíða eftir hrísgrjónunum eru kjúklingabringurnar skornar í 4 bita og kryddaðar með salt og pipar.
- Hitið pönnu og setjið svolítið af olíu á pönnuna. Steikið kjúklingabitana þannig þeir brúnist á öllum hliðum.
- Sjóðið 2,5 dl af vatni í hraðsuðukatli, hellið í skál og setjið 1kjúklingakraft út í vatnið, hrærið þangað til allt hefur leyst upp. Leyfið soðinu að kólna svolítið.
- Í frekar stóra skál setjið þið matreiðslurjóma ásamt mangó chutney, karrý, tandoorí og kjúklingasoðið, blandið vel saman.
- Þegar hrísgrjónin eru nánast tilbúin setjið þið þau í botninn á eldföstumóti, setjið svo kjúklinginn yfir og hellið svo sósunni yfir þannig að hún flæðir upp að kjúklinginum.
- Látið eldast inn í ofni í 30 mín.
Njótið vel!
Ykkar, Linda Benediktsdóttir
Allar vörur í þessa uppskrift fást í Kosti.
Category: