Ef þú ert að leita að súkkulaðiköku sem er algjörlega ómótstæðileg þá ertu komin á réttan stað.
Þessi brownie súkkulaðikaka með blautum toppi er ein af þeim kökum sem hverfur á augabragði – stökk falleg bökuð himna utan um blauta kökuna ofan á mjúkri og ríkri súkkulaðikökunni.
Kakan er bökuð í tveimur lögum: fyrst klassískur browniebotn sem verður léttur og mjúkur, og svo kemur annar skammtur af blautu deigi yfir, sem bakast aðeins að ofan. Útkoman er algjör súkkulaðibomba sem bráðnar í munni og gleður alla súkkulaðiunnendur.
Hún er einföld, hrikalega góð og passar í hvaða boð sem er – hvort sem það er til helgar, í afmæli eða bara þegar þú vilt búa til eitthvað sem er ótrúlega gott, ótrúlega auðvelt og ótrúlega eftirminnilegt.
Ef þið viljið þá er gott að bera þessa köku fram með vanilluís.
Hefur þér dreymt um nákvæmari, hægari og ítarlegri uppskriftarmyndbönd en þú sérð á Instagram? Þú finnur þau núna inn á https://www.patreon.com/cw/LindaBen. Þar getur þú keypt þér áskrift og fengið fleiri allar uppskriftirnar mínar með nákvæmum myndböndum sem þú getur fylgt eftir skref fyrir skref. Fengið fleiri uppskriftir sem eru aðeins fyrir meðlimi, vikumatseðla og innkaupalista!
Hér finnur þú nákvæma uppskriftamyndbandið við þessa köku: https://www.patreon.com/posts/brownie-med-145359582






Brownie súkkulaðikaka með blautum toppi
- 250 g smjör
- 300 g suðusúkkulaði
- 50 g kakó
- klípa af salti
- 7 egg
- 250 g sykur (skipt í 125 g og 125 g)
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, undir og yfir hita.
- Setjið smjör og súkkulaði í pott og bræðið varlega saman.
- Setjið kakóið og saltið í pottinn og hrærið saman við. Kælið blönduna svolítið.
- Aðskiljið eggjarauðurnar frá eggjahvítunum.
- Þeytið eggjarauður með 125 g sykri þar til létt og ljóst. Hellið kældri súkkulaðiblöndunni ofan í eggjarauðublönduna og veltið varlega saman.
- Þeytið eggjahvíturnar með 125 g sykri þar til alveg stífir toppar myndast. Bætið eggjahvítunum út í súkkulaðiblönduna varlega. Byrjið á því að setja svolítið af eggjahvítunum og velta varlega saman við. Setjið svo meira þar til allar eggjahvíturnar hafa blandast saman við.
- Smyrjið 23 cm form (eða setjið smjörpappír í formið til að það sé ennþá auðveldara að taka kökuna úr forminu) og hellið 2/3 af deiginu ofan í formið. Setjið inn í ofn og bakið í 25 mín eða þar til kakan hefur stækkað vel í ofninum og pinni kemur hreinn út úr kökunni sé honum stungið í hana. Kælið kökuna alveg.
- Hellið það sem eftir er af deiginu ofan á kökuna og setjið aftur inn í ofn og bakið í 13-15 mín eða þar til þunn bökuð himna hefur myndast ofan á kökuna en hún er ennþá fljótandi undir.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar










