Mig hafði mjög lengi langað að gera mér alvöru pönnupizzu. Þar sem ég eignaðist nýverið fullkomna steipujárns pönnu var ekki eftir neinu að bíða lengur. Ég fékk þessa glæsilegu Lodge steipujárns pönnu í Hrím en ég hef áður fjallað um þessa snilld hér á blogginu, það er hægt að nota hana í nánast hvað sem er og því óþarfi að vera eiga marga potta og pönnur.
Þegar ég hef tíma finnst mér gott að gera mína eigin pizzasósu, það er nefninlega alveg merkilega einfalt og skemmtilegt. Það er þó engin skömm í því að nota búðarkeypta sósu, þetta fer allt eftir því hvað hentar, stundum hefur maður tíma og nennu en stundum ekki. Fyrir ykkur sem hafið tíma, set ég uppskriftina af pizzasósunni hér fyrir neðan.
Það er mikilvægt að nota góða ólífu olíu í þessa uppskrift, bragðgóða og sem þolir 220ºC hita. Þess vegna notaði ég hefðbundnu Filippo Berio ólífu olíuna í allar uppskriftirnar.
Þessi uppskrift gefur tvær pönnupizzur. Mér finnst chorizo betra en pepperóní og því vel ég það yfirleitt á mína pizzu ef það er í boði. Ég vel alltaf að borða ólífur með steini fram yfir steinlausar. Þær eru þéttari í sér og bragðmeiri á meðan þær steinlausu finnst mér alltof oft vera frekar slepjulegar.
Pizzadeig:
- 1 kg hveiti (mér finnst gott að blanda saman 60/40 hveiti og heilhveiti)
- 12 g þurrger (einn poki)
- 650 ml volgt vatn
- ½ dl ólífu olía
- 1 msk sykur
- 1 tsk salt
Pizzasósa:
- 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
- 4 hvítlauksgeirar
- 2 msk ólífu olía
- 1 msk ólífu olía
- 1 tsk balsamik vinegar
- ¾ tsk salt
- Svartur pipar eftir smekk
Álegg:
- 2 stórar mozarella kúlur
- Chorizo (u.þ.b. 16 sneiðar)
- 1 elduð kjúklingabringa
- ¼ rauðlaukur
- u.þ.b. 30 stk grænar ólífur með steini
- ½ rauð paprika
- ½ tsk þurrkað oreganó
- Salt og pipar
- Hvítlauksolía (2 hvítlauksgeirar skornir smátt ofan í 1 dl ólífu olíu)
- Parmesan ostur
Aðferð:
- Byrjið á því að útbúa deigið með því að setja ger og sykur út í volgt vatn. Hrærið því svo saman við hveitið ásamt ólífu olíu, hnoðið deigið í dálitla stund. Deigið á að verða klístrað án þess að það límist við puttana og gefa vel eftir, sé potað í það. Látið það hefast á volgum stað þangað til það hefur um það bil tvöfaldast í stærð.
- Kveikið á ofninum og stillið á 220ºC.
- Útbúið sósuna með því að setja öll sósu innihaldsefnin í blandara og blandið vel saman, smakkið til með kryddunum.
- Skiptið pizzadeiginu í tvo hluta. Smyrjið steipujárns pönnu vel með Filippo Berio ólífu olíu. Setjið annan hlutan af deiginu ofan í pönnuna og fletjið það út með því að þrýsta því vel út í alla kanta, deigið má endilega ná svolítið upp á hliðar pönnunnar.
- Næst setjiði vel af sósu á pizzuna, skerið mozarella kúlur í sneiðar (líka hægt að rífa hana bara), skerið rauðlaukinn í sneiðar og dreifið helmingnum af honum yfir. Setjið u.þ.b. 8 sneiðar chorizo á pizzuna og rífið helminginn af kjúklingabringunni yfir. Skerið paprikuna smátt niður og setjið helminginn yfir ásamt nokkrum ólífum. Kryddið með oreganó, salti og pipar.
- Bakið inn í ofni í neðstu stöðu, í um það bil 20 mín eða þangað til botninn er bakaður í gegn og osturinn gullin.
- Dreifið hvítlauksolíu yfir, eftir smekk og rífið parmesan ost yfir.
- Endurtakið ferlið fyrir hinn helminginn af pizzadeiginu.
Ef þú prófar þessa uppskrift, þá þætti mér svo vænt um að heyra hvernig smakkast! Skildu endilega eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben
Besta pítsa sem við höfum smakkað! Þessi er rosaleg!!