Um daginn varð húsbóndinn á heimilinu 29 ára gamall, Róbert vildi að sjálfsögðu gera köku fyrir pabba sinn og skreyta hana. Við ákváðum að gera dumle nammiköku en hún sló algjörlega í gegn! Kakan er létt, ljúf og kremið gerir hana algjörlega ómótstæðilega.
Við ákváðum að skreyta kökuna með daimbitum og lakkrísbitum en að sjálfsögðu er hægt að nota hvaða nammi sem er til að skreyta.
Dumle nammikaka:
- 200 g smjör
- 4 egg
- 3 dl sykur
- 5 dl hveiti
- 4 msk kakó
- 2 tsk lyftiduft
- 2 tsk vanillusykur
- 2 dl mjólk
Krem:
- 240 g dumle karamellur
- 1 dl rjómi
- 3 dl flórsykur
- Lakkrísbitar og daim eftir smekk, eða annað nammi.
Aðferð:
- Stillið ofninn á 200°C.
- Bræðið smjörið.
- Hrærið saman sykur og egg þangað til blandan verður ljós og létt.
- Blandið þurrefnunum saman.
- Hellið mjókinni út í smjörið.
- Setjið þurrefnin á víxl við smjörblönduna út í eggjablönduna þangað til allt hefur blandast saman.
- Setjið í 25 x 25 cm form eða hringform í svipaðri stærð.
- Bakið inn í ofni í um það bil 15 mín.
- Látið kökuna kólna og útbúið kremið.
- Bræðið karamellurnar í potti með rjómanum. Bætið flórsykrinum útí og hrærið saman við, ef blandan verður kekkjótt rennið henni þá í gegnum sigti. Kælið kremið þangað til það verður svolítið stíft og smyrjið því þá á kökuna.
- Skerið lakkrísbita niður í 3-4 bita og dreifið því yfir kökuna ásamt daim-i.
Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ég minni þig á að fylgjast með mér á Instagram en þar er ég oft að elda og baka og sýni “step-by-step” frá matseldinni. Einnig erum við fjölskyldan á fullu að byggja okkur nýtt hús frá grunni þannig það er nóg að gera á Instagram!
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben