Espresso ostakaka
Ef þú elskar kaffi og súkkulaði þá er þessi kaka bókstaflega draumur í kökuformi.
Silkimjúk espresso ostakaka með súkkulaðibotni og djúsí súkkulaðitoppi sem bráðnar í munni.
Hún er bæði elegant og ótrúlega einföld að útbúa — engin bökun, bara hreint sælkerabragð sem lyftir kaffistundinni upp á næsta level.
Þessi kaka er fullkomin eftir gott kvöldmat, í veisluna eða bara þegar þú vilt dekra aðeins við þig og gestina.
Espresso ostakaka
Botn
- 480 g Noir kex með belgísku súkkulaði
- 50 g smjör
Ostakaka
- 400 g rjómaostur
- 200 g flórsykur
- 1 dl mjög sterkt espresso kaffi (kalt)
- 500 ml rjómi
Súkkulaðitoppur
- 300 g suðusúkkulaði
- 100 g smjör
- 1 dl rjómi
Aðferð:
- Setjið kexið í matvinnsluvél og maukið vel þar til það verður að mjúku mauki.
- Bræðið smjörið og blandið saman við kexið.
- Smyrjið hring af smelluformi og klæðið að innan með smjörpappír. Setjið smjörpappír á kökudisk, smellið hringnum ofan á og hellið kexblöndunni í formið. Setjið í frysti.
- Hrærið saman rjómaost, flórsykur og kalt espresso-kaffi.
- Þeytið rjómann stífan og blandið honum varlega saman við rjómaostablönduna með sleikju. Hellið ofan á botninn og setjið í frysti í minnst 8 klst. eða yfir nótt.
- Setjið smjör, rjóma og súkkulaði í pott og bræðið saman við vægan hita. Látið kólna aðeins.
- Takið kökuna úr frysti, leyfið henni að jafna sig í um klukkustund. Með hringinn enn á kökunni, hellið súkkulaðibráðinni yfir og sléttið.
- Takið smelluformshringinn og smjörpappírinn af. Skreytið með nokkrum kaffibaunum fyrir elegant lokahnykk.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar
Category: