Vinir mannsins míns komu til okkar í gær og voru að hjálpa okkur að ganga frá á lóðinni fyrir haustið. Hér er nefninlega verið að klára að klæða húsið okkar og ganga frá öllu utan dyra. Eins og svo oft áður þegar vinir okkar koma að hjálpa þá er þeim að sjálfsögðu boðið í mat.
Það var mikið haust veður sem kallaði hreinlega á góða súpu. Því ákvað ég að gera blómkálssúpu með baguette brauði.
Sonur minn fékk að borða á undan okkur hinum þar sem blómkálssúpa er uppáhalds maturinn hans og hann hafði einfaldlega ekki þolinmæði til þess að bíða eftir matnum lengur á meðan karlarnir kláruðu að vinna. Hann er alveg pottþétt mesti blómkálssúpu aðdáandi á landinu og afar fátt sem honum finnst betra. Æðið hans fyrir blómkálssúpu byrjaði þegar smakkaði hana fyrst í leikskólanum og hef ég verið að keppast við það að búa til betri blómkálssúpu heldur en matráðurinn í leikskólanum í mörg ár. Loksins í gær sagði barnið: “Mamma þetta er besta blómkálssúpa sem ég hef nokkur tíman smakkað!” og þú getur rétt svo ýmindað þér hvernig mamman bráðnaði eins og smjör á fljúgandi heitri pönnu!
Þegar ég setti súpuna á borðið fyrir okkur hin var ég ekkert að hafa hátt um það úr hverju hún var. Ég leyfði frekar öllum sem sátu við borðið að smakka og segja mér svo hvernig smakkaðist. Þeir sögðu mér allir að þeim fyndist súpan virkilega góð og voru afar ánægðir með hana.
Það er mjög sniðugt að tvöfalda þessa uppskrift og frysta ef það verður afgangur.
Fljótleg og einföld blómkálssúpa í einum potti
- 1 stór blómkálshaus
- Vatn
- 4 dl rjómi (líka hægt að nota 50/50 mjólk og rjóma)
- 2-3 stk grænmetisteningur
- 1-2 tsk soja sósa
- ¼ tsk karrý
- ½ tsk salt
- ½ tsk pipar
- Ferskt kóríander (má sleppa en er alveg frábært með)
Aðferð:
- Hreinsið blómkálið, skerið það gróft niður og setjið í pott. Látið vatn fljóta örlítið yfir blómkálið og sjóðið fyrst með lok á pottinum en þegar suðan er komin vel upp þá takiði lokið af og haldið áfram að sjóða þangað til um það bil 1/3 af vatninu er gufað upp.
- Takið ¼ af soðna blómkálinu upp úr pottinum og setjið í skál, maukið það sem er eftir í pottinum með töfrasprota eða blandara.
- Setjið 4 dl af rjóma í pottinn og hitið, bætið grænmetisteningunum, soja sósunni og kryddunum saman við í skömmtum. Það er betra að byrja á að setja minna, smakka og setja svo meira af kryddunum eftir smekk.
- Setjið heila soðna blómkálið aftur í pottinn og leyfið súpunni að malla í um það bil 5-10 mín. Berið svo súpuna fram með ferskum kóríander og heitu baguette.
Ef þú prófar þessa uppskrift, þá þætti mér svo vænt um að heyra hvernig smakkast! Skildu endilega eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!
Ykkar, Linda Ben
Mjög góð súpa einföld og bragðgóð . Mæli með henni ???? kveðja Valla
Geggjuð súpa!
Æðislega góð súpa. Ekki skemmir fyrir hvað hún er einföld!
Besta súpan! Súper einföld og góð mæli með:)
Rosalega góð súpa !
Frábært, en gaman að heyra það! 🙂