Þessi uppskrift er fullkomin fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í eldhúsinu eða einfaldlega þá sem vilja gera eitthvað einfalt.
Sæta niðursoðna mjólkin gerir kraftaverk hvað varðar áferð á þessari ostaköku, hún er alveg eins og silki! Að sjálfsögðu þá er bara ekki hægt að klikka með jarðaber og oreo sér við hlið, algjörlega skotheld blanda. Þið eruð því örugg með að slá í gegn með þennan eftirrétt.
Ef krökkunum ykkar langar að sjá um eftirréttinn þá er þetta eftirréttur sem þau geta léttilega leikið eftir án þess að þurfa að biðja ykkur um (mikla) hjálp.
Fljótleg og ljúffeng oreo ostakaka sem þarf ekki að baka, uppskrift:
- 2 msk sykur
- 400 g rjómaostur
- 400 ml sæt niðursoðin mjólk (sweetened condenced milk)
- 1/2 dl sítrónusafi
- 1 tsk vanilludropar
- 20 oreo kexkökur
- 10-15 jarðaber
Aðferð:
- Þeytið rjómaostinn þangað til hann verður mjúkur, blandið þá saman við sykrinum og sætu niðursoðnu mjólkinni. Hrærið saman.
- Setjið sítrónu safa og vanilludropa út í.
- Setjið blönduna í sprautupoka.
- Myljið oreo kexkökur með því að setja þær í matvinnsluvél.
- Skerið jarðaberin smátt niður.
- Raðið oreo mylsnum neðst í glösin, jarðaber ofan á það og sprautið svo ostaköku yfir. Endurtakið þetta skref og skreytið svo toppinn á glösunum með mylsnum og jarðaberjum.
- Setjið ostkökurnar inn í ísskáp eins lengi og þið þurfið en minnst klukkutíma.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben