Grillað brauð á priki var eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt um áður fyrr en núna nýlega. Strákurinn minn er búinn að vera á skátanámskeiði á meðan skólinn er í sumarfríi en þar grilluðu þau krakkarnir svona brauð á priki. Hann kom heim svo spenntur og sagði mér frá þessu öllu mjög nákvæmlega, mér fannst þetta alveg frábær hugmynd og smelltum við í svona brauð hér heima líka til að prófa.
Brauðið er með eindæmum gott! Því er dýpt í smjör á meðan það er ennþá heitt af grillinu og borðað strax. Strákurinn minn elskar að strá smá kanilsykri yfir smjörið en ég fýla að dýfa brauðinu ofan í hvítlaukssmjör, þitt er algjörlega valið svo í hvernig smjör þú vilt dýfa brauðinu þínu svo í.
Uppskriftin sjálf af brauðinu er afar einföld og eitthvað sem all flestir ættu að ráða við. Einfaldlega blanda saman hveiti, geri, sykri og vatni, leyfa því svo að hefast í klukkutíma á hlýjum stað.
Svo skiptir maður deiginu í 8 hluta og gerir u.þ.b. 20 cm rúllur úr hverjum hluta (gott að nota nóg af hveiti til að græja þetta), svo rúllar maður deiginu svolítið þétt á grillpinna eða einfaldlega spítu úr garðinum sem hefur verið snyrt til.
Ég vona að þið eigið eftir að hafa gaman við að gera þessa uppskrift!
Grillað brauð á priki
- 300 g hveiti
- 1 tsk sykur
- 1 tsk ger
- 200 ml volgt vatn
- 30 ml ólífu olía
- 1 tsk salt
Aðferð:
- Blandið öllum innihaldsefnum saman í skál og hnoðið, látið hefast á volgum stað í klukkutíma eða þar til deigið hefur tvöfaldast að stærð.
- Skiptið deiginu í 8 hluta.
- Rúllið hverjum hluta í lengju og vefjið því utan um langan grillpinna eða langt prik sem hentar til að grilla á.
- Grillið yfir heitum eldinum með því að halda pinnanum fyrir ofan eldinum án þess að eldtungurnar nái brauðinu, þá brennur það. Brauðið er tilbúið þegar það er orðið stökkt að utan og aðeins farið að verða meira gullið brúnt.
- Berið fram með hvítlaukssmjöri eða smjöri og kanilsykri.
Þú finnur öll hráefni í þessa uppskrift í Krónunni.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar