Kalkúnaveisla – Kalkúnn bakaður í salvíusmjöri með öllu tilheyrandi
Nú þegar hátíðarnar nálgast er ótrúlega notalegt að fara að huga að öllum veisluréttunum sem framundan eru. Og það er eitt sem er alveg ómissandi: góður kalkúnn. Hvort sem það er á jólunum, áramótunum eða í Þakkargjörðarveislu – ég segi alltaf já við öllum hátíðum sem kalla á ljúffengan mat og góðan félagsskap.
Í þessari uppskrift er kalkúnninn bakaður upp úr salvíusmjöri sem er algjört lostæti. Salvía er svo hátíðleg og ilmsterk kryddjurt og lyftir öllu réttinum upp á næsta stig. Mér finnst líka alveg frábært að Vaxa er farin að rækta ferska salvíu – án allra skaðlegra efna – og hún er svo bragðmikil og góð. Hrein snilld!
Kalkúnafyllingin (kalkúna stuffing)
Fyllingin er ótrúlega ljúffeng og full af góðgæti – sveppum, góðri skinku, smá selleríi, döðlum, steinselju og auðvitað salvíu. Þetta er sú tegund af fyllingu sem maður gæti borðað beint upp úr skálinni, hún er svo góð!
Kraftmikil kalkúnasósa
Kalkúnasósan er svo hjartað í öllu. Ég byrja á að steikja innyflin upp úr smjöri og sjóða þau svo vel og lengi til að mynda djúpan, kraftmikinn soðgrunn. Þá tek ég innyflin upp og bæti ferskri salvíu út í soðið til að fá hátíðlega, ilmandi sósu. Það er mjög mikilvægt að gefa sér góðan tíma í sósugerðina því bragðið er í mallinu.
Undirbúningur daginn áður – leyndarmálið að stresslausri veislu
Það er ótrúlega sniðugt að undirbúa hluta af kalkúnaveislunni daginn áður. Þú getur t.d.:
-
útbúið rauðkálið
-
gert fyllinguna
-
útbúið sætkartöflumúsina
Settu allt í skálar eða eldföst mót, lokaðu vel með plastfilmu og geymdu inni í ísskáp. Þetta sparar þér mikla vinnu og stress daginn sem veislan er og gerir allan daginn miklu skemmtilegri.







Kalkúnaveisla – Kalkúnn með öllu tilheyrandi
Kalkúnn bakaður í salvíu smjöri
- Heill kalkúnn
- 350 g smjör
- 15 g salvía frá Vaxa
- Salt og pipar
- 400 ml vatn
- 5 gulrætur
- 1 laukur
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 160°C, undir og yfir. Takið til stóran kalkúnapott með loki.
- Setjið smjörið í pott, saxið salvíuna og bætið út í smjörið, leyfið að bráðna saman.
- Penslið helmingnum af salvíu smjörinu yfir kalkúninn, kryddið hann með salti og pipar.
- Takið utan af lauknum, skerið hann í 4 hluta og setjið ofan í pottinn ásamt gulrótum. Bætið vatninu ofan í pottinn og lokið pottinum. Setjið inn í ofninn.
- Baka þarf kalkúninn í 35 mín fyrir hvert kíló eða þar til kjarnhiti nær 71°C. Notið ausu til að ausa soðinu yfir kalkúninn á 20-30 mín fresti, gott að stilla klukku til að muna eftir þessu.
- Takið lokið af pottinum u.þ.b. 45 mín áður en kalkúnninn verður tilbúinn, til að húðin brúunist á kalkúninum. Penslið restinni af smjörinu yfir kalkúninn á u.þ.b. 10 mín fresti eða þar til smjörið klárast.
- Látið kalkúninn hvíla við stofuhita í 20 mín áður en hann er skorinn.

Kalkúna fylling með döðlum
- 250 g smjör
- 2 1/2 laukar
- 600 g sveppir
- 200 g sellerí
- 30 g steinselja frá Vaxa
- 30 g salvía frá Vaxa
- 500 g góð skinka
- 175 g döðlur
- 270 g brauð
- 5 stór egg
- 3½ dl rjómi
- 1 tsk salt
- 1½ tsk pipar
Aðferð:
- Bræðið smjörið í potti.
- Skerið, laukinn, sveppina, selleríið, steinseljuna, salvíuna og skinkuna niður og bætið út í pottinn.
- Steikið laukinn létt og bætið svo restinni út í pottinn, leyfið að malla í u.þ.b. 10 mín.
- Skerið skorpuna af brauðinu og skerið það svo í litla teninga. Blandið öllu vel saman og leyfið svo blöndunni að kólna í u.þ.b. 20 mín.
- Hræðið eggin og rjómann létt saman, blandið saman við blönduna.
- Kryddið með salti og pipar.
- Setjið í eldfastmót og bakið í 45 mín.

Kraftmikil kalkúnasósa
- 50 g smjör
- Innyfli úr kalkúninum (sleppa lifrinni)
- 1 msk kalkúnakryddblanda
- 500 ml vatn
- 15 g salvía frá Vaxa
- 60 g kalkúnasósugrunnur
- 2 dl rjómi
- 1 tsk dijon sinnep
- 1 msk rifsberjasulta
- 4-5 dl soð af kalkúninum (vatnið úr kalkúnapottinum)
- Salt og pipar
- 1-2 msk púrtvín (má sleppa)
- Maizea sósuþykkir eftir þörfum
Aðferð:
- Kryddið innyflin með kalkúnakryddblöndu, steikið þau upp úr smjöri til að loka kjötinu. Hellið vatni út í pottinn og sjóðið í 1-2 klst við mjög vægan hita.
- Takið innyflin upp úr pottinum og geymið.
- Setjið salvíuna heila út í pottinn og látið malla í soðinu í 15-20 mín, veiðið hana svo upp úr.
- Setjið kalkúnasósugrunninn ofan í pottinn ásamt rjóma, sinnepi og rifsberjasultu, leyfið öllu að malla svolitla stund.
- Þegar kalkúninn er að verða tilbúinn, bætiði þá soði af kalkúninum út í pottinn, kryddið með salti og pipar og látið malla. Smakkið til með meiri sultu, sinnepi og púrtvíni.
- Setjið smávegis maizena sósuþykki út í sósuna og látið suðuna koma upp, setjið meira eftir þörfum. Ath að sósan þar að sjóða eftir að þykkirinn er settur út í svo hann virki.

Rauðkál
Sætkartöflumús
- 2 mjög stórar sætar kartöflur
- 150 g smjör
- 1 egg
- ½ tsk vanilludropar
- 2 msk púðursykur
- 100 g pekanhnetur
Aðferð:
- Sjóðið sætu kartöflurnar þar til þær eru mjúkar í gegn.
- Flysjið kartöflurnar og setjið í skál ásamt smjöri, eggi og vanilludropum. Hrærið þar til mjúkt og fallegt mauk.
- Hellið í eldfastmót, setjið púðursykur yfir ásamt pekanhnetum.
- Bakið inn í ofni við 180°C, undir og yfir hita í 25 mín.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar












