Hér höfum við einstaklega góðar vatnsdeigisbollur fylltar með tvennskonar karamellusúkkulaði og karamellukurli.
Maður byrjar á því að bræða Pralín saltkaramellufyllta súkkulaðið saman við þeyttan rjóma og fyllir bollurnar, toppar þær svo með karamellukurli og bræddu Doré karamellusúkkulaði. Ef þú elskar karamellu og súkkulaði þá er það algjörlega borðliggjandi að þú verður að smakka þessar!
Karamellusúkkulaði vatnsdeigsbollur
- Vatnsdeigsbollur (sjá uppskrift hér fyrir neðan)
- 600 ml rjómi (100 ml – 400 ml – 100 ml aðskilin)
- 200 g Síríus Pralín með salkaramellufyllingu
- Sælkerabaksturs Karamellukurl (magn eftir smekk)
- 200 g Síríus Doré karamellusúkklaði
Aðferð:
- Útbúið vatnsdeigsbollurnar samkvæmt uppskrift hér fyrir neðan.
- Setjið 100 ml af rjóma í pott og hitið að suðu (ekki sjóða). Brjótið Pralín súkkulaðið í skál og hellið rjómanum yfir, hrærið þar til bráðnað og samlagað. Kælið örlítið.
- Setjið aftur 100 ml af rjóma í pottinn og hitið að suðu. Brjótið Doré karamellusúkkulaðið í skál og hellið rjómanum yfir, hrærið þar til bráðnað og samlagað. Kælið örlítið.
- Þeytið 400 ml rjóma þar til hann er næstum því tilbúinn, ekki orðinn alveg nógu stífur, og setjið þá brædda pralín súkkulaðið út í rjómann og þeytið áfram þar til rjóminn er tilbúinn.
- Fyllið bollurnar með súkkulaðirjómanum, setjið karamellukurl yfir og lokið bollunum. Toppið með Doré karamellusúkkulaðibráðinni og örlítið meira karamellukurli.
Vatnsdeigsbollur
- 125 g smjör
- 1 msk sykur
- 275 ml vatn
- 170 g hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- ½ tsk salt
- 3-4 egg
Aðferð:
- Kveiktu á ofninum og stilltu á 180°C og blástur.
- Smjör, sykur og vatn er sett í pott og soðið saman í 2-3 mín. Slökktu svo undir pottinum.
- Hveiti, lyftiduft og salt er sett í skál, bættu því út í smjör-vatnið og hrærðu vel saman með sleif. Deigið á að vera þétt og lyftast upp frá brúnum pottsins. Láttu standa í 5 mín. Færðu deigið í hrærivél.
- Settu þrjú egg út í deigið, eitt og eitt í einu og hrærðu þau vel saman við deigið. Vegna þess að egg eru misttór eru mismunandi hversu mikið þú þarft af seinasta egginu. Áferðin á deiginu á að vera þannig að deigið lekur hægt og svolítið erfiðlega af sleifinni á nokkrum sekúndum. Deigið á að halda nokkurveginn sömu lögun eftir að þú setur það á plötuna en ekki leka út og verða flatt. Settu seinasta eggið í litla skál og hrærðu það saman. Settu 1 msk af egginu í einu út í og hrærið vel á milli þangað til þú ert komin með rétta áferð á deigið.
- Settu smjörpappír á ofnplötu og settu deigið í sprautupoka eða matskeiðar til að útbúa bollurnar (2 msk ein bolla). Hafðu gott pláss á milli bollanna því þær stækka mikið í ofninum, gott að miða við um það bil 12 bollur á hverja plötu.
- Bollurnar eru bakaðar í 20-25 mín en ekki opna ofninn fyrr en allavega 20 mín eru liðnar. Þá er hægt að taka eina út og meta hversu margar mínútur bollurnar eiga eftir, en þú sérð það þegar þú opnar bolluna og sérð hversu blaut hún er inní.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar
Category: