Þessi skyrterta er algjörlega ómótstæðileg!! Fudgy brownie botninn passar svo fullkomlega með mildri kirsuberja skyrfyllingunni.
Ég notaði kirsuberja skyrið frá Örnu en það er í miklu uppáhaldi á mínu heimili. Það er 100% laktósafrítt og með því að nota rjóma og mjólk frá Örnu ásamt mjólkurlausu súkkulaði í brownie botninn hefur þú möguleika á því að gera þessa köku algjörlega laktósa fría.
Ég skreytti kökuna með þvi að setja nokkra dropa af kirsuberja sósu ofan á hana og dreifði svo úr þeim með sleikju. Svo skar ég nokkur kirsuber í helminga, steinhreinsaði og raðaði þeim í miðjuna, í lokin reif ég smá súkkulaði yfir.
Kirsuberja skyrterta með brownie botni
- 115 g smjör (smjörlíki)
- 1 og 3/4 dl súkkulaði
- 2 og 1/3 dl sykur
- 2 egg
- 60 ml mjólk frá Örnu
- 2 og 1/3 dl hveiti
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 175ºC.
- Smyrjið 22 cm smelluform.
- Bræðið saman smjör og súkkulaði í potti yfir lágum hita.
- Slökkvið á hitanum og hellið sykrinum út í blönduna, hrærið reglulega í og látið kólna svolítið (5-10 mín)
- Í hrærivélaskál blandið saman mjólk og eggjum. Hellið saman við súkkulaði-smjör blöndunni og hrærið vel.
- Blandið hveitinu varlega saman við og hellið í formið. Bakið í 25 mín.
- Kælið botninn fullkomlega áður en skyrfyllingin er sett ofan á.
Kirsuberja skyrfylling:
- 400 g kirsuberja skyr frá Örnu
- 3 dl rjómi frá Örnu
- 2 msk flórsykur
Aðferð:
- Þeytið rjómann og bætið út í hann flórsykrinum.
- Hrærið skyrinu varlega saman við. Hellið blöndunni í smelluformið. Setjið kökuna í ísskáp og látið hana kólna í minnst 3 klst eða yfir nótt. Kökuna er einnig hægt að frysta.
Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!
Njóttu vel!
Þín, Linda Ben
Þessi færsla er kostuð en það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunni.
Komdu sæl!
Hvaða smjör ertu að nota í þessa köku?
Sæl Ingibjörg
Ég nota einfaldlega venjulegt smjör en ef þú ert að leytast eftir að hafa kökuna laktósa fría þá er hægt að nota smjörlíki 🙂
Kveðja Linda
Prufaði þessa um helgina, var með barnaafmæli. Kakan sló heldur betur í gegn, sjúklega góð
Frábært, en gaman að heyra! 🙂