Það góða við asíska núðlurétti er að það tekur nánast enga stund að útbúa þá. Þetta snýst um að steikja kjötið/grænmetið og sjóða núðlurnar, svo er hægt að nota tilbúnar sósu eða búa þær til frá grunni, bara það sem hentar hverjum og einum.
Þessi réttur er virkilega bragðgóður og “djúsí”. Það er mikið bragð af sósunni en það er smá hiti í henni en það er jafnað út með sætu bragði. Rétturinn í heild sinni er ekki of sterkur svo allir fjölskyldumeðlimir geta notið matarins.
Ég notaði þessar lífrænu bókhveiti soba núðlur í þennan rétt. Þær komu virkilega skemmtilega á óvart þar sem þær brögðuðust bara eins og venjulegar núðlur, ekki “of hollar á bragðið” eins og t.d. maðurinn minn var ansi hræddur um. Þessar núðlur fá því meðmæli frá honum líka!
Kjúklinga Pad Thai
- 200 g núðlur
- 3 kjúklingabringur skornar í smáa bita
- salt og pipar
- 2 egg
- Vorlaukur
- ¼ laukur
- Kóríander
Þið getið valið um að nota tilbúna pad thai sósu úr búð (um það bil 2,5 dl) eða gert ykkar eigin.
Heimatilbúin pad thai sósa:
- 1 dl tómatsósa
- 2 msk fiskisósa
- 2 msk sykur
- 1 hvítlauksgeiri
- 1 tsk hnetusmjör
- 1 lime
- ½ tsk chilli flögur
- 1 tsk soja sósa
Aðferð:
- Setjið vatn í pott og sjóðið.
- Kryddið kjúklinginn með salt og pipar og steikið hann á pönnu. Þegar hann er tilbúinn setjið hann til hliðar í skál.
- Setjið núðlurnar í pottinn og sjóðið þær samkvæmt leiðbeiningum á pakka, þangað til þær eru næstum því tilbúnar.
- Setjið öll innihaldsefni sósunnar í skál og hrærið saman.
- Skerið hvítlaukinn og venjulega laukinn smátt niður.
- Brjótið eggin út á heitu pönnuna og steikið í um það bíl mínutu. Setjið laukana út á pönnuna og steikið í smá stund, bætið kjúklingnum og sósunni út á. Hrærið saman.
- Hellið vatninu af núðlunum og setjið núðlurnar út á pönnuna, hrærið saman.
- Skerið vorlaukinn niður og setjið út á ásamt kóríanderinu.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben