Þessi klassíska lasagna uppskrift er einföld og afar bragðgóð. Kjötsósan er full af góðu og nærandi grænmeti, hvítlauk og er raðað í lasagnað ásamt ríku magni af mozzarella osti.
Það elska allir gott lasagna er það ekki? Að minnsta kosti hittir það alltaf beint í mark á mínu heimili. Bæði börnin mín elska gott lasagna og borða sjaldan jafn vel og þegar það er í matinn. Ég hef þetta oft í matinn þegar ég veit að ég og maðurinn minn verðum meira upptekin í vikunni og munum kunna vel að meta að hita upp ljúffenga lasagna afganga í staðinn fyrir að eyða dýrmætum tíma í að elda (eða kaupa take out sem við reynum alltaf að halda í lágmarki).
Lasagna er nefninlega kjörið að smella í þegar maður er með marga í mat en einnig þegar maður vill elda 1x en njóta oftar. Lasagna geymist nefninlega vel í ísskáp tilbúið, eða allt að 5 daga. Það er einnig hægt að frysta það tilbúið. Til að hita það aftur er það einfaldlega látið ná stofuhita og svo hitað í örbylgju þar til það er orðið heitt aftur.
Klassíkst lasagna eins og það gerist best
- 1/2 laukur
- 3 gulrætur
- 150 g sveppir
- 200 g brokkolí
- U.þ.b. 1 msk Smjör eða olía til að steikja upp úr
- U.þ.b. 5-6 hvítlauksgeirar
- 500 g ungnautahakk frá SS
- 1 msk Oreganó
- Salt og pipar eftir smekk
- 1 tsk timjan
- 2 tsk basil
- 2 dósir (hver dós 400 g) niðursoðnir Mutti tómatar
- 1 krukka (400 g) Basilico tómatpastasósa frá Barilla
- Lasagnablöð frá Barilla
- 400 g rifinn hreinn mozzarella ostur
Aðferð:
- Skerið niður laukinn, gulræturnar, sveppina og brokkolíið niður. Setjið á pönnu og steikið létt upp úr smjöri eða olíu. Rífiið hvítlauksgeirana út á pönnuna með rifjárni.
- Bætið nautahakkinu á pönnuna og kryddunum, steikið þar til kjötið er steikt í gegn.
- Skerið niðursoðnu tómatana niður og bætið þeim svo út á pönnuna ásamt safanum af þeim sem er í dósinni. Bætið einnig pastasósunni út á pönnuna og látið malla í smá stund, smakkið til og bætið við meira af kryddunum ef ykkur finnst vanta.
- Kveikið á ofninum og stillið á 190°C, undir og yfir hita.
- Takið stórt eldfast mót, mitt er 36×23 cm, setjið kjötsósu í botninn á forminu þannig að það þekji botninn en þunnt. Setjið lasagna blöð ofan á og aftur þunnt lag af kjötsósu svo það þekji lasagna blöðin. Setjið aftur lasagna blöð yfir, setjið svo rifinn ost yfir lasagna blöðin og svo kjötssósu, endurtakið þar til kjötsósan er búin, efst á að vera kjötsósa og rifinn ostur ofan á henni.
- Bakið lasagnað í u.þ.b. 30 mín eða þar til osturinn er byrjaður að brúnast og lasagna blöðin orðin mjúk þegar stungið er í lasagnað.
- Takið lasagnað út úr ofninum og leyfið því að jafna sig í u.þ.b 15 mín áður en það er skorið i það.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar