Lambahryggur í kryddjurtahjúp borin fram með maíssalati og timjan hunangssinneps sósu.
Þessi lambahryggur er svo góður, kryddhjúpurinn gerir hann alveg ótrúlega bragðmikinn og góðan. Timjan og hunanngssinnepssósan er skemmtileg tilbreyting frá rjómasósunni.
Mér finnst maíssalatið alltaf svo páskalegt og gott með lambakjötinu, kemur með skemmtilegan lit á borðið.
Ég gerði einnig gulrótamús með lambakjötinu og kartöflubáta með timjan.
Lambahryggur í kryddjurtahjúp borin fram með maíssalati og timjan hunangssinneps sósu
Lambahryggur í kryddjurtahjúp
- Lambahryggur
- ólífu olía
- Salt og pipar
- 30 g fersk steinselja
- 15 g fersk mynta
- 15 g ferk rósmarín (takið stilkana frá)
- 70 g brauðteningar
- 1 dl kasjúhnetur
- safi úr 1 sítrónu
- 1 dl maille dijon sinnep
Aðferð:
- Takið hrygginn út úr kæli með góðum fyrirvara, gott að miða við 2-3 tímum fyrir eldun svo hann sé búinn að ná stofihita fyrir eldun.
- Kveikið á ofninum og stillið á 180°C, undir og yfir hita.
- Skerið í fituna, gott er að skera hana í teninga þannig að hver teningur eru u.þ.b. 2×2 cm. Penslið hrygginn með olíu og kryddið með salti og pipar.
- Setjið hrygginn í eldfast mót og setjið kjöthitamæli í hrygginn. Bakið þar til kjarnhiti nær 48°C.
- Útbúið kryddhjúpinn með því að setja steinselju, myntu, rósmarín, brauðteninga, kasjúhnetur og sítrónusafa í blandara, blandið þar til nokkuð gróf blanda hefur myndast.
- Takið hrygginn snögglega út úr ofninum og penslið hann með sinnepi og setjið kryddjurtahjúpinn á hrygginn, mér finnst best að klæða mig í einnota hanska og nota hendurnar til að setja hann á. Setjið hrygginn aftur inn í ofn og bakið þar til kjarnhiti nær 58°C.
Maíssalat
- 1/2 dl kaldpressuð jómfrúar ólífu olía
- 3 msk hvítvínsedik
- 2 msk majónes
- 1 hvítlauksgeiri
- 1 tsk paprikukrydd
- 1/2 tsk salt
- 1/2 tsk pipar
- 840 g maískorn frá Ora
- 1 rauð paprika
- 1 rauðlaukur
- 15 g fersk steinselja
Aðferð:
- Byrjið á því að útbúa sósuna með því að setja í stóra skál ólífu olíu, hvítvínsedik, majónes, rifinn hvítlauksggeira, paprikukrydd, salt og pipar. Hrærið saman.
- Ofan í sósuna bætiði maískorni, smátt sneiddum rauðlauk, papriku og smátt saxaðari steinselju, hrærið saman.
Timjan hunangssinnepssósa
- 300 ml Maille hunangs Dijon sinnep
- 4 msk ólífu olía
- 1 msk þurrkað timjankrydd
- 3 hvítlauksgeirar
- safi úr 1/2 sítrónu
- 3 dl vatn
- 1 kjúklingakraftur
- 1 lambakraftur
- U.þ.b. 1 msk maizena sósuþykkir
- Salt og pipar
Aðferð:
- Setjið sinnep, ólífu olíu og timjan í pott, rífið hvítlauksgeirana niður og hrærið saman við.
- Pressið sítrónusafann út í pottinn, bætið vatni út í pottinn og krafti, látið sjóða saman. Setjið sósuþykkinn út í, lítið í einu og látið suðuna koma upp á milli. Kryddið til með salti og pipar.
Gulrótamús
- 800 g gulrætur
- 2 msk ólífu olía
- 1/4 tsk salt
Aðferð:
- Gufusjóðið gulræturnar með því að skera þær fyrst í bita og raða ofan í pott með gufusuðusigti. Setjið vatn ofan í pottinn en látið vatnið ekki ná upp í gulræturnar. Setjið lokið á pottinn og sjóðið þar til gulræturnar eru mjúkar í gegn.
- Setjið gulræturnar í blandara ásamt ólífu olíu og salti og maukið.
Kartöflubátar með timjan
- 1 kg smælki eða litlar kartöflur
- Ólífu olía
- Salt
- 1 msk timjan
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 180°C, undir og yfir hita.
- Skerið kartöflurnar í 4 báta og raðið á smjörpappírsklædda ofnplötu, dreifið ólífu olíu, salti og timjan yfir.
- Bakið í u.þ.b. 30-40 mín eða þar til kartöflurnar eru bakaðar í gegn, hrærið í kartöflunum þegar helmingurinn af tímanum er liðinn.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar
Category: