Lúffengar og próteinríkar skyr brauðbollur.
Hér höfum við alveg einstaklega ljúffengar brauðbollur þar sem aðal innihaldsefnið er skyr!
Það gæti komið ykkur mörgum á óvart hversu ótrúlega góðar þessar bollur eru. Þær eru virkilega mjúkar og rakamiklar, alveg dásamlega góðar með smjöri, osti og gúrkusneiðum.
Ekki skemmir hversu hollar þessar bollur eru, algjör næringar bomba!
Bollurnar innihalda m.a. haframjöl, egg, skyr, hörfræ og graskersfræ en við vitum öll hve holl þau innihaldsefni eru og í raun óþarfið fyrir mig að telja það upp.
Það er eiginlega ótrúlegt hversu einfalt það er að gera þessar bollur, maður einfaldlega smellir öllum innihaldsefnunum saman í skál eða blandara (skál ef maður vill hafa bollurnar grófar en blandara ef maður vill áferðina mjúka, ég set deigið í blandara), smellir svo deiginu á ofnskúffu og bakar í 20 mín. Það þarf ekki að hefa og ekkert vesen, algjör snilld!
Skyrbollur
- 600 g haframjöl
- 500 g hreint skyr frá Örnu Mjólkurvörum
- 6 egg
- 3 tsk matarsódi
- 1 ½ tsk salt
- 2 msk hunang
- 2 msk hörfræ
- Graskersfræ sem skraut
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 180°C, undir og yfir hita.
- Setjið haframjöl, skyr, egg, matarsóda, salt, hunang og hörfræ í blandara og blandið þar til allt hefur blandast vel saman og áferðin orðin heldur mjúk.
- Takið 2 msk af deigið og setjið á smjörpappirsklædda ofnskúffu þannig að úr verði kúla, það ættu að komast 9 kúlur fyrir á einni plötu, setjið nokkur graskersfræ á hverja kúlu og bakið í 20 mín eða þar til bollurnar eru gullinbrúnar.
- Kælið bollurnar og njótið svo með ykkar uppahálds áleggi.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar
👍Svakalega góðar þessar!! Ég er alltaf að leita af heilbrigðum og prótín ríku bakkelsi. Gat ekki notað ekta skýr an notaði Siggi skyr 😅 Bý í USA😀
Gaman að heyra það, takk fyrir að láta vita! ❤️