Ofnbökuð kjúklingalæri og hrísgrjón er góður réttur úr tiltölulega hagkvæmum hráefnum og því fellur þessi uppskrift undir “ódýr kvöldmatur” seríuna á Instagram.
Þetta er ekki bara ódýr réttur heldur er hann líka mjög einfaldur og þægilegur réttur sem kallar á stutta viðveru yfir eldavélinni. Maður einfaldlega smellir öllu saman í eldfastmót og lætur ofninn sjá um eldamennskuna.
Kjúklingalærin eru krydduð vel en líka hrísgrjónin sem eru bökuð með lærunum inn í ofni með smjöri, lauk og hvítlauk. Þau eru því ótrúlega djúsí og góð, því er sósa svo gott sem óþörf með þessum rétti. Á mínu heimili búa samt tveir miklir sósukallar sem vilja alltaf sósu með matnum og því gerði ég einfalda hvítlaukssósu með en það er líka gott að bera þennan rétt fram með sojasósu.
Salatið má aldrei vanta og bar ég þennan rétt með ljúffengu salatblöndunni frá Vaxa, eins og ég geri svo oft. Salatið í salatblöndunni er stökkt og bragðmikið. Ræktað á alveg lífrænan og hreinan hátt og því er það algjör óþarfi að skola salatið áður en maður borðar það.
Ofnbökuð kjúklingalæri og hrísgrjón
- 900 g kjúklingalæri með beini
- 4 dl hrísgrjón
- 1 laukur
- 4 hvítlauksgeirar
- 50 g smjör
- 800 ml sjóðandi heitt vatn
- 3 kjúklingakraftar
- 2 tsk paprikukrydd
- 2 tsk oreganó
- 1 tsk hvítlaukskrydd
- Salt og pipar
- Salatblanda frá Vaxa
- Hvítlaukssósa/sojasósa (má sleppa)
Aðferð
- Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, undir og yfir hita.
- Bræðið smjörið á pönnu, skerið laukinn og hvítlaukinn smátt niður og bætið út á pönnuna. Steikið þar til laukurinn er orðinn mjúkur.
- Setjið lauksmjörið í eldfastmót ásamt hvísgrjónum, sjóðandi heitu vatni og kjúklingakrafti. Blandið öllu vel saman.
- Kryddið kjúklinginn með paprikukryddi, oreganó og hvítlaukskryddi. Raðið lærunum ofan á hrísgrjónin, lokið forminu með álpappír og bakið í 30 mín. Takið álpappírinn af og bakið áfram í 30 mín.
- Berið fram með salatblöndu.
- Ef þið viljið meiri sósu með þá er gott að bera fram með hvítlaukssósu eða sojasósu, en það þarf ekki.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar