Linda Ben

Ofur einföld og góð vegan pestó pizza

Ég prófaði seinasta sumar vegan pizzu á pizza og brugghúsinu Ölverk í Hveragerði. Það var engin sérstök ástæða fyrir því að ég ákvað að prófa þá pizzu, ég er hvorki vegan, grænmetisæta eða neitt þannig, ég er bara venjuleg “æta” sem elskar góðan mat og fannst hún hljóma vel. Ég neita því samt ekki, alltaf þegar ég borða vegan mat líður mér betur líkamlega og andlega. Síðan ég smakkaði þessa pizzu hefur hún aldrei horfið úr huga mér.

Þar sem það er yfirleitt dálítill spotti fyrir mig að fá mér pizzu í Hveragerði ákvað ég að reyna útbúa mína eigin útgáfu af þessari pizzu. Ég varð alveg rosalega ánægð með mína útgáfu og því langar mig að deila henni. En ég hvet ykkur 100% til þess að prófa þótt þið séuð ekki vegan eða hrifin af grænmetisfæði almennt, bragðið af þessari pizzu er ROSALEGT! Það er ótrúlegt hvað það er hægt að gera góðan mat úr jafn einföldum hráefnum.

_MG_7237

Það er hægt að nota hvaða pizzudeig sem er í þessa pizzu, veldu það sem þér finnst gott og þægilegt. Það er engin pizzasósa í þessari uppskrift heldur er notuð extra virgin ólífu olía. Ólífu olían gerir botninn mjúkan og sveppina líka, það má því fara nokkuð vel af henni á botninn.

Þar sem þetta er vegan pizza er að sjálfsögðu nauðsynlegt að bera hana fram með vegan pestói. Þið finnið uppskrift af einu besta vegan basil pestói hér. Þetta pestó er órjúfanlegur hluti af pizzunni en ég ákvað samt að hafa uppskriftina af pestóinu sem sér uppskrift svo þessi yrði ekki of löng. Það er líka hægt að nota pestóið í svo miklu meira en bara þessa pizzu.

_MG_7228

Vegan pestó pizza (miðast við eina 12“ pizzu)

  • Pizzadeig að eigin vali, ég mæli með þessu
  • ½ dl extra virgin ólífu olía
  • 4-5 sveppir
  • 1 dl stórar kókosflögur
  • 1 rauður chillí
  • Vegan pestó
  • 1 dl extra virgin ólífu olía
  • 2 hvítlauksgeirar

Aðferð:

  1. Byrjað er á því að kveikja á ofninum og stilla á 220ºC.
  2. Extra virgin ólífu olíu er dreift á pizzu botninn, sveppirnir skornir í sneiðar og dreift yfir. Botninn er svo bakaður inn í ofni í um það bil 10 mín eða þangað til hann er bakaður í gegn.
  3. Núna er best að gera hvítlauksolíuna en þá eru tveit hvítlauksgeirar skornir smátt niður, sett í skál og hellt 1 dl extra virgin ólífu olíu yfir.
  4. Kókosflögum er svo dreift yfir, chillí er skorinn í þunnar sneiðar (mundu eftir að fjarlægja fræjin fyrst ef þú vilt ekki hafa pizzuna sterka) og dreift yfir.
  5. Pestóið er svo dreift yfir pizzuna alla, magn fer eftir smekk, en ég mæli með því að vera ekkert að spara það.
  6. Hvítlauksolían fer svo á pizzuna eftir smekk, 1 tsk í einu.

Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben

 Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!

_MG_725n3

 

Njóttu vel!

Þín Linda Ben

Category:

Leave a Review

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

1 2 3 4 5