Samlokur með fetaostasósu í nestið.
Hér höfum við æðislegar samlokur með ljúffengri fetaostasósu og grænmeti. Fetaostasósan er alveg himnesk en hún passar með alveg ótrúlega mörgu. Einhverjir muna mögulega eftir því þegar ég smellti henni með kartöflubátum sem kom rosalega vel út. Einnig hef ég prófað hana með grillkjöti og mörgu öðru og slær hún alltaf í gegn. Ekki er hún bara bragðgóð heldur ein sú allra einfaldasta sem þú smellir í. Aðeins tvö hráefni, salatostur og majónes.
Sósan er aðalmálið á þessum samlokum en svo er hægt að leika sér meira mep hvað maður setur á milli, hægt er að setja t.d. skinku eða annað grænmeti en ég nefni. Leyfið hugmyndafluginu að ráða.
Samlokur með fetaostasósu í nestið
- Súrdeigsbrauð (eða annað gott brauð)
- 130 g salatostur frá Örnu Mjólkurvörum
- 2 msk majónes
- Sveppir
- 2 msk smjör
- Salat
- Paprika
- Tómatar
Aðferð:
- Skerið brauðið í sneiðar.
- Setjið fetaostinn án olíunnar í skál og maukið ostinn með gaffli, blandið saman við majónesi. Smyrjið sósunni á samlokubrauðin.
- Skerið sveppina niður í sneiðar, steikið á pönnu upp úr smjöri og setjið á brauðin ásamt grænmetinu, lokið samlokunum og pakkið t.d. inn í smjörpappír.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar