Þessar snjókorna smákökur eru unaðslega góðar! Ég elska líka gamaldags útlitið á þeim, líta svolítið út eins og eitthvað sem amma hefði bakað í gamla daga.
Innihald:
- 1 bolli heslihnetuhveiti
- 2 1/2 bolli hveiti
- 1 matskeið kanill
- 1 tsk matarsódi
- Salt
- 250 g smjör við stofuhita
- 1 bolli sykur
- 1 egg
- Flórsykur
- Hindberjasulta
Aðferð:
- Byrjað er á að blanda saman þurrefnunum í skál.
- Í hrærivélaskál setjið þið smjörið og hrærið þangað til það verður létt og loftmikið.
- Þá setjið þið sykurinn útí og hrærið vel.
- Næst er eggið sett út í og hrært vel.
- Þurrefnunum er svo blandað rólega út í.
- Setjið deigið svo í plastfilmu og það kælt í 2 tíma. Það er gert til þess að kökurnar bakist fallega og fái ekki sprungur í sig. Ef þið eruð að flýta ykkur þá skiptið þið deginu í nokkra litla hluta, fletjið þá út og setjið í ísskápinn með plastfilmu, deigið ætti að kælast mun hraðar þannig.
- Þegar deigið hefur náð að kólna vel þá setjiði smá hveiti á borðið og fletjið deigið út þangað til það er 0,5 cm á þykkt. Ég notaði smákökuform frá Wilton sem er eins og snjókorn, en auðvitað getið þið notað hvaða smákökuform sem þið viljið.
- Raðið svo kökunum á smjörpappír og setjið inn í 170°C heitann ofn í 10-12 mín.
- Þegar kökurnar hafa kólnað þá setjið þið hálfa tsk af hindberjasultu í miðja kökuna og dustið flórsykri yfir með sigti. Ég mæli með að setja aðeins sultu á þær kökur sem verða borðaðar strax, setjið hinar ósultaðar í smákökubox og þær munu geymast góðar í 2 vikur.
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben
Category: