Smáréttaveisla – bragðgóðar hugmyndir fyrir veisluna
Nú er sá tími árs þar sem mikið er af veislum framundan og því fannst mér kjörið að koma með nokkrar hugmyndir af smáréttum sem henta vel á veisluborðinu og hvernig er gaman að bera matinn fram.
Ég gerði tvær mismunandi snittur, eina með roast beef á sjólkjarnabrauði, en ég er viss um að þessi útfærsla eigi eftir að koma ykkur skemmtilega á óvart. Sólkjarnarúgbrauðið er smurt með rjómaosti og sultu en roast beefið er svo toppað með klettasalati og furuhnetum. Virkilega bragðgóð útfærsla og skemmtileg tilbreyting frá klassíska remúlaðinu og steikta lauknum.
Hin snittan samanstendur m.a. af baugette, pestóskinku og döðlum, alveg svakalega góð þó ég segi sjálf frá.
Góða veislu má aldrei vanta ostabakka að mínu mati og því smellti ég saman einum slíkum. Mér finnst gott að miða við að setja mismunandi osta á bakkann, eins og til dæmis einn harðann, einn klassískan og einn kryddost eins og ég gerði í þessu tilviki. Góðan ostabakka má heldur ekki vanta bragðgóðar kryddpylsur, ég notaði rauðvínssalami og göngubita á þennan ostabakka og kom það bæði fallega út og pössuðu þær mjög vel með ostunum.
Kokteilpulsurnar eru eitthvað sem slá alltaf í gegn á veisluborðum, bæði hjá börnunum og hjá fullorðnum, svo passaðu að vanmeta ekki hversu mikið fer af þeim. Ég bar þær fram með tómatsósu og dijon sinnepi í fallegum skálum, það er upplagt að hafa pinna til hliðar svo fólk lendi ekki í vandræðum með að fá sér.
Annars ætla ég að leyfa myndunum að tala sínu máli hvað varðar framsetningu á matnum. Ég vil þó vekja athygli á því að ég mæli yfirleitt að para saman ljósan mat á dekkri bakka og dökkan mat á ljósari bakka, eins og sjá má t.d. á snittunum. Ljóst baguette á það til að poppa fallega á viðarbakka á meðan sólkjarnabrauðið hefði fallið meira inn í viðarbakkann.
Rjómaosta roast beef snittur
- Sólkjarnarúgbrauð
- Rjómaostur
- Mangó og ástaraldin sulta
- Roast Beef frá SS
- Klettasalat
- Ristaðar furuhnetur
Aðferð:
- Skerið sólkjarnarúgbrauðið í helminga, smyrjið með góðu lagi af rjómaostinum og setjið sultu yfir.
- Takið eins sneið af roast beef, snúið upp á sneiðina og setjið á brauðið.
- Setjið klettasalat og ristaðar furuhnetur yfir.
Pestó skinku og brie snittur
- Baguette brauð
- Hágæða ólífu olía
- Pestó skinka frá SS
- Brie
- Döðlur
- Basil eða Mynta
- Sesam fræ (má sleppa)
Aðferð:
- Skerið baguette í sneiðar og smyrjið með ólífu olíu.
- Leggið pestó skinkuna í helminga á hverja brauðsneið.
- Skerið brie þvert í sneiðar og leggið ofan á skinkuna.
- Skreytið með basil eða myntu laufi og nokkrum sesam fræjum.
Ostabakki
- Brie
- Primadonna
- Hvítlauksostur
- Rauðvínssalami frá SS
- Göngubiti þurrverkuð kryddpylsa frá SS
- Baguette
- Kex
- Jarðaber
- Bláber
- Makkarónur
- Mangó og ástaraldin sulta
Aðferð:
- Skerið rauðvíssalami niður í sneiðar.
- Skolið jarðaberin og bláberin, þerrið þau vel með eldhúspappír.
- Byrjið á því að raða ostunum á bakkann, gott að miða við að hafa þá c.a. á hornunum og rauðvínssalami í eitt hornið.
- Setjið göngubita í frekar litla skál með bröttum hliðum svo stafirnir standi nokkruveginn upp í loftið.
- Raðið því næst kexi og baguette á bakkann.
- Næst setjiði makkarónur og berin á bakkann.
Annað sem má finna á borðinu er:
- Kokteilpylsur – setjið í ofnskúffu og hitið við 200°C í u.þ.b. 10 mín.
- Tómatsósa
- Sinnep
- Eitt Sett bitar bornir frá í skál frá Önnu Þórunni
- Bláber borin frá í skál frá Önnu Þórunni
- Cheesecake Factory ostakaka borin fram með bláberjasultu og ferskum bláberjum.
- Valhnetur bornar fram í þessari skál
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar