Þetta sumarlega salat hentar sem meðlæti með nánast hvaða mat sem er. Einnig er hægt að steikja kjúklingabringur eða annað í bitum og setja út á til að gera það að aðalrétti.
Ég hef ekki oft áður séð ferskar apríkósur hér á Íslandi en ég hef oft keypt þær þegar ég er erlendis. Ég hreinlega varð því að kaupa þær þegar ég sá þær í Kosti um daginn. Fersku apríkósurnar eru alveg dásamlega góðar einar og sér en hér gera alveg ótrúlega mikið fyrir salatið.
Ég fæ alltaf fyrirspurnir um þessa skál sem nota hér undir salatið og því má ég til með að deila því með ykkur hér. Þetta er sem sagt eldfast mót sem ég keypti í Heimahúsinu um daginn. Þetta mót er úr sérstökum leir sem er mjög léttur og þolir nánast allt. Það má nota það á gaseldavélar, setja inn í ofn, á grill og örugglega fleira sem ég er að gleyma. Ég nota það þó líka bara sem ílát þegar ég vil bera fram hluti á fallegan hátt eins og fyrir þetta salat. Á tímabili notaði ég það líka sem punt inn í stofuhillu! Gríðarlega fallegt að mínu mati og mikið notað á þessu heimili.
Salat með ferskum apríkósum
- 1 lítill haus dökkt blaðsalat
- 1 avokadó
- 5-7 kirsuberjatómatar
- ½ kubba fetaostur, ekki í olíu
- 6 ferskar apríkósur
- hágæða og bragðgóð ólífu olía
- salt og pipar
Aðferð:
- Skolið öll hráefni og þerrið mjög vel, það heldur salati fersku lengur.
- Rífið salatið niður í skál eða fallegan disk.
- Steinhreinsið avokadóið og skerið öll hráefnin í litla bita. Dreifið öllu jafnt ofan á salatið.
- Hellið ólífu olíu yfir salatið í örmjórri bunu, kryddið svo með salt og pipar eftir smekk.
Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu hana á Instagram með #lindulostæti
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben