Sumarleg skyrterta með berja toppi.
Þessa uppskrift samdi ég upprunalega seinasta sumar þegar ég var að semja uppskriftir fyrir bókina mína Kökur. Þetta er aðeins breytt útgáfa af þeirri köku en hún er algjörlega ein af mínum uppáhalds eins og allar uppskriftirnar sem eru að finna í bókinni minni. Kakan er létt, fersk og ótrúlega bragðgóð. Mér finnst hún fullkomið mótvægi við þungu rjóma og súkkulaðitertunum og því læt ég þessa ekki vanta á veisluborðin.
Fyrir áhugasama þá er hægt að kaupa bókina mína hér.
Hér getið þið séð útgáfuna sem er að finna í bókinni.
Eins og þið sjáið eru þessar kökur nokkuð ólíkar í útliti en eru nokkuð svipaðar í grunninn, þó ekki eins en báðar ótrúlega góðar!
Þú finnur uppskriftamyndband af þessari köku inn á Instagraminu mínu, ýttu hér til að horfa
Sumarleg Skyrterta með berja toppi
- 180 g hafrakex
- 30 g smjör
- 200 g rjómi
- 400 g vanillu skyr
- 150 g flórsykur
- 5 matarlímsblöð
- Hindber
- Jarðaber
- Bláber
Aðferð:
- Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél. Blandið smjörinu saman við kexið.
- Smyrjið 20 cm smelluforms hring (ekki botninn) og klæðið með smjörpappír. Setjið smelluformshringinn í miðjuna á kökudisk og þrýstið kexblöndunni ofan á diskinn, setjið í frystinn á meðan kakan er græjuð.
- Þeytið rjómann og blandið vanilluskyri saman við ásamt flórsykri.
- Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn þar til þau eru orðin mjúk (sækjið botninn í frystinn á meðan). Setjið þau þá í lítinn pott og bræðið þau við vægan hita. Hellið líminu út í skyr deigið og blandið strax saman við. Hellið yfir kexbotninn og sléttið úr deiginu. Setjið inn í fyrsti í u.þ.b. 3-4 klst eða lengur.
- Skreytið kökuna með berjum og jafnvel blómum ef þið viljið (muna að taka óæt blóm af kökunni áður en hún er borðuð.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar