Sumarlegt og æðislega gott risarækjusalat sem þú átt eftir að elska.
Ef þig langar í eitthvað ferskt og gott að borða þá skaltu smella í þetta sumarlega mangó og risarækjusalat. Það er svo ótrúlega gott!
Maður byrjar á því að smella risarækjunum í marineringu sem saman stendur að mestu af lime, hvítlauk og chillí, og svo steikir maður þær á pönnu. Svo smellir maður romain salati, bökuðum sæt kartöflubitum, mangó og tómötum í skál, smellir svo dressingunni, risarækjunum og ferskri basil yfir. og þá eruði komin með þetta dásamlega sumar salat.
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í Krónunni.
Sumarlegt og æðislega gott risarækjusalat með chillí og lime dressingu
Risarækjur og marinering:
- 400 g risarækjur (óeldaðar)
- 2-3 msk hitaþolin olía (t.d. sólblómaolía)
- 3-4 hvítlauksgeirar
- 1 tsk oreganó
- 1/2 tsk þurrkað chillí
- Salt og pipar
- 1 stk lime
Salat:
- 300 g Romain salat
- 1 sæt kartafla (u.þ.b. 350 g)
- 1 mangó
- 3 tómatar
- Ferskt basil
Dressing:
- 3 msk hágæða extra virgin ólífu olía
- 1 1/2 msk balsamik edik
- 1 tsk hunang
- 1 lime
- 1/4 tsk chillí
- Salt og pipar
Aðferð:
- Byrjið á því að setja risarækjurnar í marineringu. Afþýðið rækjurnar í köldu vatni (ef þær eru frosnar), þerrið rækjurnar og setjið í skál.
- Hellið olíu yfir rækjurnar, rífið hvítlaukinn yfir þær, bætið oreganó út á ásamt chillí kryddi, salt og pipar, rífið börkinn af lime-inu og kreystið svo safann úr henni. Blandið öllu saman og leyfið rækjunum að marinerast, helst í klukkustund, en annars eins lengi og tími leyfir.
- Kveikið á ofninum, stillið á 200°C, undir og yfir hita.
- Skrælið sætu kartöfluna og skerið hana í litla bita. Raðið í eldfast mót, setjið örlítið af hitaþolinni olíu yfir og salt og pipar. Eldið í u.þ.b. 20 mín eða þar til kartöflubitarnir eru eldaðar í gegn.
- Skerið romain salatið niður og setjið á stóran disk, raðið kartöflubitunum á diskinn, flysjið mangóið og skerið það í bita ásamt tómötunum, raðið á diskinn.
- Eldið risarækjurnar á pönnu þar til þær eru fallega bleikar á litinn. Raðið yfir salatið.
- Hrærið saman dressingunni með því að setja ólífu olíu í skál ásamt balsamik ediki, hunangi, chillí, kreystið safann úr lime og kryddið með salti og pipar.
- Hellið dressingunni yfir salatið og skreytið með ferskri basiliku.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar