Súrdeigssamlokur með krispí kjúkling og karamelluseruðum lauk sem eru alveg dásamlega góðar!
Pagen súrdeigsbrauðið er virkilega mjúkt og bragðgott brauð úr góðum hráefnum. Það inniheldur engin E-efni eða önnu aukaefni. Það er því virkilega heilsusamlegur kostur sem bragðast alveg svakalega vel.
Ég hef verið að nota þetta brauð hér heima undanfarið og krökkunum líkar það mjög vel. Það er með mjúkri skorpu eins og þau vilja og hægt að gera brauð á grilli úr því, en það er oft ekki hægt með hefðbundið súrdeigsbrauð sem þau kvarta oft yfir.
Ég gerði þessar dásamlegu góðu samlokur fyrir okkur fjölskylduna og þær slóu algjörlega í gegn. Krakkarnir voru fyrst óviss með karamelluseraða laukinn en þegar þau smökkuðu, sannfærðust þau um ágæti hans.
Það er upplagt að gera þessar samlokur og taka með sér í nesti, en þær eru frábærar sem hádegismatur.
Súrdeigssamlokur með krispí kjúkling og karamelluseruðum lauk
- Pagen Súrdeigsbrauð
- Hunangssinnepssósa (uppskrift hér fyrir neðan)
- Kjúklingur í krispí hjúp (kaupi frosinn fulleldaðan)
- Karamelluseraður laukur (uppskrift hér fyrir neðan)
- Tómatar
- Klettasalat
Aðferð:
- Bakið krispí kjúklinginn inn í ofni samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
- Útbúið karamelluseraða laukinn samkvæmt leiðbeiningum hér fyrir neðan.
- Smyrjið vel af sósu á brauðin. Skerið tómatana niður og raðið á brauðsneiðarnar ásamt klettasalati.
- Skerið kjúklinginn niður og raðið á brauðið ásamt karamelluseruðum lauk. Lokið samlokunum og skerið í tvennt,
Hunangssinnepssósa
- 1 dl mæjónes
- 1 tsk sterkt dijon sinnep
- 1 tsk hunang
- 1 hvítlauksgeiri
- Safi úr 1/2 sítrónu
- Salt og pipar
Aðferð:
- Setjið mæjónes í skál ásamt sinnepi og hunangi. Rífið hvítlaukinn út í mæjónesið og kreistið safann úr 1/2 sítrónu. Hrærið öllu saman og smakkið til með salti og pipar.
Karamelluseraður laukur
- 1 laukur
- 1/2 msk smjör
- 1 tsk sykur
- 1/2 msk balsamik edik
- Salt og pipar
Aðferð:
- Skerið laukinn í sneiðar og steikið upp úr smjöri. Bætið sykri, balsamik ediki, salt og pipar á pönnuna og leyfið þessu að malla þar til laukurinn er orðinn gullin brúnn.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar