Svakaleg þriggjahæða smákökudeigs kaka með súkkulaðibitum, alvöru smákökudeigi inn í kökunni sjálfri, hjúpuð með rjómaostakremi og skreytt með að lokum með meira smákökudeigi!
Ef þú fýlar óbakað smákökudeig þá mun þessi kaka skilja þig eftir í alsælu!
Engar áhyggjur samt ef þú ert ólétt eða vilt af einhverjum öðrum ástæðum ekki borða óbakað smákökudeig, þetta er nefninlega eggjalaus smákökudeigs uppskrift.
Svakaleg þriggja hæða smákökudeigs kaka
Nákvæmt aðferðarmyndband er að finna á Instagram.com/lindaben í “smáköku kaka” highlights.
Smákökudeig
- 120 g mjúkt smjör
- 120 g sykur
- 120 g púðursykur
- ½ dl nýmjólk frá Örnu Mjólkurvörum
- 1 tsk vanilludropar
- 250 g hveiti
- ½ tsk salt
- 150 g súkkulaði dropar eða gróft saxað suðu súkkulaði
Aðferð:
- Hrærið saman mjúku smjöri, sykri og púðursykri.
- Bætið vanilludropum og mjólk saman við.
- Blandið saman hveiti og salti, hrærið því saman við.
- Bætið súkkulaðidropunum saman við og blandið saman.
- Skiptið deiginu í tvennt, fletið deigin örlítið út og geymið inn í ísskáp á meðan kakan er útbúin.
Kakan
- 330 g mjúkt smjör
- 400 g sykur
- 3 egg
- 1 tsk vanilludropar
- 2 tsk lyftiduft
- 400 g hveiti
- 2 ½ dl nýmjólk frá Örnu Mjólkurvörum
- 1 dl grískt jógúrt frá Örnu Mjólkurvörum
- 150 g súkkulaði dropar eða gróft saxað suðu súkkulaði
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 175°C og undir+yfir.
- Hrærið saman smjöri og sykri þar til létt og ljóst, bætið þá eggjunum út í, eitt í einu. Því næst setjiði vanilludropana út í.
- Blandið saman hveiti og lyftidufti, setjið helminginn út í eggjablönduna á móti helmingnum af nýmjólkinni. Blandið saman, setjið restina af hveiti út í ásamt nýmjólkinni og grísku jógúrtinni.
- Bætið súkkulaðinu varlega út í með sleikju.
- Takið 3 stk 18 cm smelluform (líka hægt að nota 20 cm), smyrjið formin vel og skiptið deiginu á milli formanna. Takið annað smákökudeigið og brjótið það, ca ½-1 msk hver biti, ofan í formin. Látið deigið hylja smákökubitana að mestu.
- Bakið inn í ofni í 30-35 mín. Kælið botnana að stofuhita áður en kremið er sett á.
Krem
- 300 g mjúkt smjör
- 150 g rjómaostur
- 700 g flórsykur
- 1 dl rjómi
Aðferð:
- Þeytið smjörið þar til það er alveg orðið þétt og ljóst (mikilvægt að þeyta smjörið fyrst vel því annars getur kremið skilið sig).
- Setjið rjómaostinn út í og hrærið létt saman við.
- Setjið flórsykurinn út í og hrærið þar til allt hefur blandast saman, hellið rjómanum saman við og þeytið kremið vel og lengi þar til það er orðið mjög létt, loftmikið og silkimjúkt.
- Setjið einn botn á kökudisk og setjið u.þ.b. ¼ af kreminu á botninn, setjið næsta kökubotn og setjið álíka mikið af kremi. Setjið seinasta botninn á og hjúpið kökuna með kremi, það ætti að vera frekar þunnt á hliðunum.
- Takið restina af kökudeiginu og myljið það ofan á kökuna sem skraut.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben svo ég sjái afraksturinn.
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben
Category: