Þessa uppskrift hef ég notað oftar en ég get talið, einföld og góð uppskrift sem hentar fyrir hvaða köku sem er. Hvort sem það eru stórar tertur eða litlar bollakökur þá virkar hún, eina sem þarf að gera er að aðlaga bökunartímann.
Nákvæmlega þessi kaka sem þið sjáið hér á myndunum var bökuð fyrir Vorhús living en þessu guðdómlega fallegi kökudiskur er frá þeim. Kakan er hluti af útstillingu Vorhús á Hönnunarmars í Epal sem er í gangi þessa dagana (14-18. mars 2018). Ég verð að viðurkenna að mér þykir það ótrúlega gaman að taka þátt í þeirri glæsilegu útstillingu og mikill heiður.
Uppskriftin miðast við einn 20 cm botn, svo auðvelt sé fyrir þig að ákveða hversu stór kakan á að vera. Í þessa tilteknu köku notaði ég þrjá botna.
Vanillu terta með silkimjúku vanillu smjörkremi
- 115 g smjör
- 2 ¼ dl sykur
- 2 stór egg
- 3 ½ dl hveiti
- 1 ½ tsk lyftiduft
- ¼ tsk salt
- ½ tsk vanilludropar
- 1 ¼ dl nýmjólk
Aðferð:
- Byrjað er á því að kveikja á ofninum og stilla á 200°C. Hræra svo saman smjör og sykur, bæta svo einu eggi út í blönduna í einu og hræra vel á milli.
- Næst er hveiti, lyftidufti og salti blandað saman í aðra skál. Þeirri blöndu er blandað saman við eggjablönduna á víxl við mjólkina og vanilludropa, 1 dl í einu.
- 20 cm smelluform er smurt vel og sáldrað léttu lagi af hveiti á allar hliðar formsins. Deiginu er hellt í formið og kakan bökuð í 30-35 eða þangað til kakan er bökuð í gegn.
- Kælið kökuna fullkomnlega, skerið efsta lagið af botninum svo hún sé slétt, áður en kremið er sett á.
Krem (miðað við tvo botna með góðu lagi af kremi á milli, ofan á og á hliðum)
- 500 g smjör
- 1000 g flórsykur
- 1 tsk vanilludropar
- 2-3 msk rjómi
Aðferð:
- Þeytið smjörið mjög vel og lengi þangað til það er orðið mjúkt og loftmikið. Bætið flórsykrinum hægt og rólega út í smjörið og þeytið virkilega vel.
- Bætið út í vanilludropum og rjóma, þeytið vel og smyrjið því svo varlega á kælda kökuna.
Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben
Þessi kaka er geggjuð – botnarnir svakalega góðir á bragðið. Ég bætti við bræddu hvítu súkkulaði við kremið sem var mjög gott en heldur sætt – held mig við alla uppskriftina næst ????
Gott að bera fram með ferskum jarðaberjum.
Takk fyrir mig Linda ????
En gaman að heyra það! Takk fyrir að láta mig vita, þykir svo vænt um það 🙂
Virkilega góð kaka. Botnarnir mjög bragðgóðir og kremið sætt og fluffý????????
Gaman að heyra það, takk fyrir að láta mig vita 🙂
Ég prófaði kremið og það var æði ???? hef verið í vandræðum að finna gott hvítt smjörkrem en nú er það fundið ????
Frábært, gaman að heyra það 🙂