Ég er nýfarin að kunna meta viskí kokteila, þá ber hellst að nefna Whisky Sour sem ég hef smakkað hvað oftast. Ég er að fýla þennan örlítið ramma tón í viskíinu, skemmtileg tilbreyting frá því sem maður er vanur að smakka í kokteilum.
Ég hef því aðeins verið að prófa mig áfram með kokteila sem innihalda viskí og þessi Whisky Grape kokteill er minn allra uppáhalds.
Hann er ótrúlega bragðgóður, fallegur á litinn á sama tíma og hann er einfaldur að gera! Maður getur að sjálfsögðu stjórnað því hversu sætur hann er með því að setja meira eða minna af sírópi en beiski greip ávöxturinn sér til þess að hann verður aldrei of sætur og leiðigjarn.
Mér finnst best að kaupa nokkra greip ávexti og kreista safann úr þeim og setja í könnu. Hafa þannig greipsafann tilbúinn þegar gestirnir koma í heimsókn.
Ég mæli með að bera drykkinn fram í fallegu kokteilglasi með örþunnri sneið af greip og jafnvel timjan stöngli ef þú ert með hann við hendina.
Varðandi sykursírópið þá er mjög einfalt að útbúa það, þú setur einfaldlega einn hluta af sykri og einn hluta af vatni (til dæmis hægt að nota 2 dl af hvoru) og sýður þangað til öll sykurkornin eru bráðnuð. En ef ég á að segja ykkur smá leyndarmál, ég hef líka stolist í bökunarskápinn minn og notað bökunar sírópið (það sama og maður notar til að gera rice crispies kökur) í kokteila og það bragðast frábærlega, en það þarf að hræra betur í drykknum til þess að sírópið leysist upp en setjist ekki bara í botninn.
Whisky Greip kokteill
- 3 cl Jim Beam Bourbon
- 6 cl safi úr greip
- 1-2 tsk sykur síróp
- 6 cl sódavatn
- Nokkrir klakar
- 1 þunn sneið af greipávexti
- 1 grein ferskt timjan
Aðferð:
- Setjið nokkra klaka í kokteilglas. Setjið viskí, greip safa og sykursíróp í glasið og hrærið saman með kokteilskeið. Fyllið upp með sódavatni.
- Skreytið drykkinn með sneið af greip ávexti og timjan sneið.
Ef þú prófar þessa uppskrift, þá þætti mér svo vænt um að heyra hvernig smakkast! Skildu endilega eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!
Ykkar, Linda Ben