Þessar sætu regnboga bollakökur eru fullkomnar í barnaafmælin eða aðrar veislur. Það er mjög einfalt að gera vanillu bollakökur, eitthvað sem flest allir eiga að geta gert.
Kreminu er einfaldlega smurt á kökurnar, ef maður vill þá er hægt að sprauta ský á kökurnar og stinga svo regnboga namminu í þau en það er alls ekki nauðsyn.
Ég mæli alltaf með því að nota bollakökumót undir pappírsformin en það gerir það að verkum að bollakökurnar halda betur lögun í ofninum og eru mikið fallegri.
Vanillu bollakökur uppskrift:
- 1 ½ dl sykur
- 2 egg
- 170 g smjör, brætt
- 3 ½ dl hveiti
- 1 ½ tsk lyftiduft
- 1/4 tsk salt
- 2 tsk vanilludropar
- 120 ml mjólk
Einnig þurfið þið regnboganammið Airheads Xtremes, sjá mynd neðar.
Aðferð:
- Bræðið smjörið.
- Stillið ofninn á 175°C.
- Hrærið saman egg og sykur þangað til blandan verður létt.
- Hellið smjörinu út í eggjablönduna í mjórri bunu, með hrærivélina í gangi.
- Setjið vanilludropana út í eggjablönduna.
- Í aðra skál blandið saman hveitinu, lyftiduftinu og saltinu.
- Blandið helmingnum af hveitiblöndunni saman við eggjablönduna.
- Blandið mjólkinni saman við og setjið svo loks afganginn af hveitiblöndunni saman við.
- Setjið pappírs muffinsform ofan í muffinsbakka.
- Fyllið hvert muffinsform upp 2/3.
- Bakið í ofninum í um það bil 15 mín eða þangað til þær eru bakaðar í gegn.
- Kælið kökurnar fullkomlega.
Smjörkrem uppskrift:
- 200 g smjör við stofuhita
- 400 g flórsykur
- 1 tsk vanilludropar
Aðferð:
- Hrærið smjörið þangað til það verður létt og loftmikið.
- Blandið flórsykrinum saman við og setjið svo vanilludropana út í.
- Hrærið þangað til kremið verður létt og loftmikið.
- Smyrjið kreminu meðalþunnt á hverja köku.
- Setjið afganginn af kreminu í sprautupoka og setið lítinn hringlaga stút á, ég notaði stút nr 7 frá Wilton.
- Sprautið tvö “ský” sitthvoru megin á kökurnar.
- Skerið regnboga nammið (Airheads Xtremes) í helminga og setjið það ofan í skýjin.
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben.
Category: