Gratíneraður þorskur í bragðmikilli rjómasósu með fullt af grænmeti.
Einfaldleikinn er í fyrirrúmi og það tekur gott sem enga stund að smella þessum rétti saman sem er eldaður í einu fati sem er mín allra uppáhalds eldunaraðferð. Allt uppvask og bras er í lágmarki en bragðið vantar sko ekki!
Það tók mig 10 mín að setja þennan rétt saman og ganga frá í eldhúsinu, svo tók það 20 mín að elda réttinn inn í ofni, sem sagt 30 mín í heildina. Akkúrat rétturinn sem manni vantar þegar maður hefur í nógu að snúast en vill samt ekki fórna hollum og bragðgóðum kvöldmat.
Gratíneraður þorskur í rjómasósu
- 700 g þorskur
- 400 g forsoðnar kartöflur
- 200 g brokkolí
- 200 g sveppir
- 250 ml rjómi frá Örnu mjólkurvörum
- 1 hvítlauksgeiri
- 200 g rifinn ostur með hvítlauk
- 1 msk grænmetiskryddblanda frá Nicolas Vahé
- Salt og pipar
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, undir og yfir.
- Kryddið þorskinn með grænmetiskryddblöndu og salt&pipar.
- Skerið kartöflurnar í helming, skerið brokkolíið í bitastóra bita, sveppina í fjóra hluta hvern og raðið í eldfast mót.
- Setjið rjómann í skál og pressið hvítlauksgeirann út í, setjið svolítið af kryddi og salt&pipar í rjómann og setjið helminginn af rifna ostinum út í, hellið yfir grænmetið í eldfasta mótinu.
- Leggið þorskinn yfir og raðið restinni af ostinum yfir. Bakið inn í ofni í u.þ.b. 20 mín eða þar til þorskurinn er eldaður í gegn.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben