Litla frænka mín varð 1 árs í byrjun apríl. Mamma hennar (systir mín) var lengi búin að hugsa hvernig köku hún ætlaði að gera fyrir 1 árs afmæli krúttmúsarinnar. Þar sem hún er mikill kisu áhugamanneskja (við systurnar líka) og elskar fátt meira en krúttlega kisu bangsa ákvað mamma hennar að búa til kisu köku handa henni.
Við höfum undanfarin ár, allt frá því að sonur minn fæddist, hjálpast að við að gera afmæliskökur barnanna okkar. Ráðfærum okkur saman, skiptum með okkur hlutverkum og veitum hvor annari andlegan stuðning í þessu öllu saman. Kökurnar hafa verið mismunandi ár frá ári, en þar sem strákarnir okkar eiga afmæli með stuttu millibili og þeir afar góðir vinir, hafa þeir viljað fá eins kökur undanfarin ár, en við þó breytt litunum aðeins.
Í fyrra gerðum við Ninjago kökur fyrir strákana sem slóu heldur betur í gegn.
Ég ætlaði upphaflega aðeins að sýna frá þessari kisu köku á Instagram í story en þar sem viðtökurnar voru svo rosalega góðar og margar fyrirspurnir um færslu, læt ég vaða í eina slíka. Ég tók þó ekkert af myndum á vélina mína, bara háklassa story video, þið vonandi fyrirgefið mér það.
Við systurnar notum alltaf þessa hérna uppskrift. Hún er ótrúlega ljúf og góð, uppskriftin er einföld og klikkar bara ekki. Það er lang einfaldast að baka botnana nokkrum dögum áður og skella þeim svo í fyrstinn, reynslan hefur kennt okkur að botnarnir verða betri við það. Fyrir utan hvað það sparar mikið stress að eiga botnana tilbúna þegar maður ætlar að fara skella í kökuna.
Í þessa köku eru notaðir fjórir botnar, en við settum botn af kökuformi á milli tveggja laga svo hver sneið væri ekki risa stór. Til þess að útskýra betur þá var kakan þá svona uppbyggð: kaka+krem+kaka+krem *botn út kökuformi* kaka+krem+kaka+krem.
Hver botn er 20 cm í þvermál.
Vil ákváðum að hafa kökuna svona peach föl bleika. Til þess notuðum við liti frá Americolor í litunum peach, deep pink og warm browm, ég kaupi þá í Ameríku og finnst þeir persónulega lang bestir. Þegar maður litar krem er best að byrja rólega, einn dropa í einu og hræra á milli, setja svo meir ef þér finnst þurfa.
Þar sem stór hluti af bökunardótinu mínu fór óvart í geymslu með mest öllu af innbúinu mínu þurftum við að nota hníf til að slétta úr kreminu, en vanalega nota ég spaða. Það gekk samt ótrúlega vel miðað við aðstæður, tók örlítið lengri tíma, en vel gerlegt. Ég vildi deila þessu með ykkur svo þið gerið ykkur grein fyrir að þó svo að maður eigi ekki allar týpur af græjum þá er það engin ástæða til að hætta við að smella í köku.
Það er þægilegt að setja kökuna á snúningsdisk áður en maður byrjar, til dæmis er viðar pizzuplattinn í IKEA mjög hentugur í það verkefni.
Til þess að gera skottið og eyrun notaði ég sprautustút nr 27 frá Wilton, en það er einnig hægt að nota nr 16 eða álíka til þess að fá svipaða áferð. Markmiðið er einfaldlega að fá svona dúðaða áferð, eins og kisan sé mjúk.
Við ákváðum að búa til eyrun í sykurmassa. Byrjuðum á því að hnoða 1 pakka af hvítum sykurmassa, tókum helminginn af massanum og lituðum hann í eins litum og kremið, það reyndist vera full dökkt og því tók ég aðeins helminginn af því og blandaði saman við hvíta hlutann, þá var ég komin með akkurat rétta litinn. Sykurmassinn var svo flattur út, u.þ.b. ½-1 cm þykkur, skorið út fyrir eyrunum og gerðar útlínur fyrir innri hluta eyranna. Þá tókum við perluhvítan duft matarlit, tókum blautan penslið og máluðum innri hluta eyrans perluhvítan. Við stungum svo tannslönglum 2/3 inn í eyrun (passa að gera ekki gat á eyrun) og festum eyrun svo á kökuna. Næst þá tók ég kremið og sprautaði mynstur á eyrun, best fannst mér að byrja neðst og vinna mig upp (sjá videó)
Við byrjuðum á að teikna skottið á í kremið með tannstögli, svo sprautaði ég einfaldu lagi af kremi inn í línurnar og byggði það svo upp svo það kæmi í þrívídd. Það er gott að sprauta nokkrum sinnum, líta svo upp úr kökunni, sjá hvernig skottið er að þróast, aðlaga sig ef þarf og sprauta svo aftur nokkrum sinnum, endurtaka (sjá videó)
Við teiknuðum svo kisu andlit á kökuna með tannstöngli, gerðum hluta af sykurmassanum svartan með því að nota svartan matarlit og kakó. Rúlluðum honum svo upp í örfínar lengjur og settum þær í línurnar sem við höfðum teiknað. Hér hefðum við líka getað litað krem og notað mjög fínan sprautustút, en við ákváðum að prófa þetta og vorum ánægðar með útkomuna þar sem ef við gerðum mistök, var einfalt mál að taka sykurmassa lengjurnar af og setja þær aftur á. Nefið gerðum við með því að taka lítinn hluta af bleik litaða sykurmassanum og bæta út í hann burgundy matarlit (ath. ef sykurmassinn verður of blautur er hægt að þurrka hann aftur upp með flórsykri).
Við enduðum svo á því að taka restina af kreminu og lita það í tvo mismunandi skærari liti. Ég setti meira af peach matarlitnum í annan hlutann og burgundy í hinn. Svo sprautuðum við doppur á milli eyranna með Wilton stútunum 1M og 30. Það er þó hægt að nota hvaða stúta sem er, markmiðið er að gera fallegt mynstur og “poppa” kökuna svolítið upp. Í lokin skreyttum við “hárið” á kisunni með sykurblómum sem systir mín keypti út í búð.
Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!
Ég vona að þú hafir haft gaman að svona aðeins öðruvísi færslu og hún muni nýtast þér vel!
Þín, Linda Ben