ÍSKALDUR MJÓLKURHRISTINGUR Á ALLTAF VEL VIÐ, LÍKA Á VETURNAR EINS OG NÚNA.
Við fjölskyldan grilluðum okkur sykurpúða í einni af okkar mörgu útilegum í sumar. Það var því skemmtilegt að rifja upp góða tíma síðan í sumar og skella í þennann ljúffenga mjólkurhristing.
Mjólkurhristingurinn var heldur betur ekki lengi að klárast, hann var bara eiginlega of góður!
Ég ákvað að nota Häagen-Dazs vanillu ís sem grunn og sá sko ekki eftir því, þetta er einfaldlega lang besti ísinn að mínu mati!
Þessi uppskrift dugar í 2 til 3 glös.
MJÓLKURHRISTINGUR MEÐ GRILLUÐUM SYKURPÚÐU
Innihald:
- 500 g Häagen-Dazs vanillu ís
- 3 dl nýmjólk
- 8 sykurpúðar
Aðferð:
- Ofninn er stilltur á 200°C grill.
- Sykurpúðunum er raðað á álpappír og settir inn í ofn í um það bil 2 mín. Gott er að fylgjast vel með sykurpúðunum á meðan þeir eru í ofninum og passa að þeir brenni ekki of mikið. Þegar þeir eru tilbúnir, takið þá úr ofninum og leyfið þeim að kólna.
- Setjið svo ísinn ásamt mjólkinni og sykurpúðunum í stórt Nutribullet glas og blandið saman.
Hellið mjólkurhristingnum í glös og skreytið að vild til dæmis með þeyttum rjóma og sykurpúðum.
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben
Category: