Linda Ben

Prinsessu terta

Prinsessu terta varð fyrir valinu þegar ég var að ákveða skírnartertu fyrir dóttir okkar. Hún er algjörlega uppáhalds, ég hreinlega elska allt við tertuna sem samanstendur af svampbotnum, pastry cream, rjóma, hindberjasultu og marsípan!

Uppskriftin af prinsessutertunni er klassísk og er fengin úr bókinni Scandikitchen Fika & Hygge. Ég breytti henni þó örlítið (vonandi Svíarnir geti fyrirgefið mér það) því mér finnst betra að tvöfalda svampbotna uppskriftina og gera fjóra þykkari botna heldur en þrjá örþunna eins og gefið er upp í bókinni. Einnig líkar mér betur að hjúpa kökuna með mjög þunnu lagi af smjörkremi áður en ég legg marsípaninn á, þannig rifnar hann síður og er ekki eins viðkvæmur.

Hér getur þú lesið um allar veitingarnar sem boðið var upp á í skírnarveislunni og hér fjalla ég um aðra skírnarveislu frá A-Ö.

Prinsessuterta, skírnarterta

Prinsessu terta

  • 4 svampbotnar, uppskrift hér fyrir neðan
  • Pastry cream, uppskrift hér fyrir neðan
  • 600 ml rjómi
  • 2 msk flórsykur
  • 150 g hindberjasulta
  • 200 g smjör
  • 200 g flórsykur
  • Útflattur marsípan, u.þ.b. 50×50 cm

Aðferð:

  1. Setjið rjómann í skál ásamt 2 msk flórsykri og þeytið rjómann. Setjið pastry cream blönduna út í rjómann og blandið varlega saman við.
  2. Setjið einn svampbotn á kökudisk, smyrjið hann með hindberjasultu, setjið u.þ.b. 1/3 af rjómablöndunni eða þar til lagið verður u.þ.b. 1-1 ½ cm þykkt.
  3. Smyrjið hina botnana með hindberjasultu áður en þeir fara á kökuna.
  4. Setjið næsta botn á kökuna, sultuna upp, setjið rjómablönduna á, svo næsta botn, sultuna upp og svo rjómablöndu, setjið seinasta botninn á, sultuna niður.
  5. Útbúið smjörkrem með því að hræra smjör þar til létt og loftmikið, bætið flórsykrinum saman við og hrærið þar til aftur létt og loftmikið. Hjúpið kökuna, bæði topp og hliðar, með þunnu lagi af smjörkremi. Hreinsið krem og rjóma af kökudiskinum svo hann sé hreinn.
  6. Leggið marsípaninn yfir kökuna, til að ná hliðunum fallegum þá setjiði aðra höndina undir marsípaninn og lyftið marsípaninum örlítið upp á meðan hin höndin þéttir hann niður að kökunni, vinnið ykkur nokkra cm niður í einu allan hringinn þar til marsípaninn liggur þétt að kökunni allstaðar.
  7. Skerið allan auka marsípan af kökunni og hnoðið honum saman, rúllið í langa lengju, u.þ.b. ½ cm þykka og nógu langa svo tvöföld nær hún rúmlega utan um kökuna. Snúið upp á lengjurnar og leggið meðfram kökunni.
  8. Skreytið til dæmis með ferskum blómum eða öðru. Hafa ber í huga ef notuð eru fersk blóm sem eru ekki æt að best er að setja þau á kökuna rétt áður en hún er borin fram og fjarlægið þau áður en fólk fær sér á diskinn (ég tek yfirleitt af 1/3 af kökunni í einu og fylgist síðan með eftir því hvernig gengur á kökuna hvenær og hversu mikið ég þarf að fjarlægja).

Pastry cream:

  • 500 ml mjólk
  • Fræin úr 1 vanillustöng
  • 1 egg
  • 1 eggjarauða
  • 100 g sykur
  • 30 g kornsterkja/maizena mjöl
  • 25 g smjör
  • ½ tsk salt

Aðferð:

  1. Setjið mjólkina í pott ásamt vanillu fræjunum í pott og hitið hana að suðu en slökkvið um leið undir og þegar byrjar að sjóða.
  2. Setjið egg, eggjarauðu, kornsterkju og sykur í skál og hrærið saman. Hellið 1/3 af heitu mjólkinni út í skálina með hrærivélina í gangi. Þegar allt hefur blandast saman hellið þá eggjablöndunni aftur ofan í pottinn með restinni af mjólkinni. Kveikið aftur á hitanum undir pottinum og hrærið stanslaust í blöndunni þar til hún hefur þykknað mikið og aðeins breytt um lit. Slökkvið þá undir pottinum og hrærið smjörið og saltið saman við.
  3. Hellið blöndunni í skál sem passar í ísskáp og leggið plastfilmu yfir, kælið vel.

Svampbotnar:

  • 50 g smjör, brætt
  • 8 egg
  • 240 g sykur
  • 240 g hveiti
  • 1½ tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • klípa af salti

Aðferð:

  1. Kveikið á ofninum og stillið á 180°C og stillið á undir+yfir.
  2. Þeytið saman eggin og sykurinn þar til blandan verður létt, ljós og nær þessu svokallaða “borða stigi” en það er þegar þeytarinn er tekinn upp úr deiginu og deigið sem lekur ofan í skálina leggst ofan á restina af deiginu og myndar einskonar borða.
  3. Blandið saman hveiti, lyftiduft, vanillusykur og salti. Bætið því varlega út í eggjablönduna og veltið mjög varlega saman með sleikju þar til allt hefur blandast saman. Mikilvægt að fara varlega svo loftið fari ekki úr eggjablöndunni.
  4. Hellið smjörinu varlega út í deigið og hrærið varlega saman við með sleikju þar til allt hefur blandast saman.
  5. Skiptið deiginu í fjóra hluta, takið tvö 22 cm smelluform og setjið smjörpappír í botninn á þeim og smyrjið hliðarnar með smjöri (mér finnst best að smyrja hliðarnar fyrst á forminu, klippa út smjörpappír sem er rúmlega botninn á forminu, loka forminu þannig að smjörpappírinn fari á milli loks og hliða og klippa svo það sem stendur útaf af smjörpappírnum). Bakið fyrst tvo botna í 12-15 mín eða þar til botnarnir eru orðnir gullnir að ofan og bakið þá seinni tvo.

Prinsessuterta, skírnarterta

Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben

Fylgistu með á Instagram!

Njótið vel!

Ykkar, Linda Ben

Leave a Review

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

1 2 3 4 5