Ég fékk alveg ótrúlega flotta köku uppskriftabók í jólagjöf sem heitir Scandikitchen Fika & Hygge. Þar eru að finna mikið að skemmtilegum uppskriftum sem eiga það sameiginlegt að vera allar af skandínavískum “ættum” og því erum við Íslendingar vel kunn mörgum af þessum kökum. Bókin er virkilega falleg og skemmtilega upp sett. Myndirnar eru allar guðdómlega fallegar og svo huggulegt eða “hygge” andrúmloftið í bókinni. Ef þið eruð að leita ykkur af góðri köku uppskriftabók eða vantar hugmynd af gjöf fyrir einhvern sem finnst gaman að baka þá mæli ég eindreigið með þessari bók!
Ég hef bakað fjölmargar kökurnar úr þessari bók, en um daginn prófaði ég að baka þessar dásamlegu daim smákökur. Þær eru seigar og haldast þannig í marga daga eftir á. Þær eru fullar af stökku daim súkkulaði og eru eiginlega bara fullkomnar. Ég bara varð því að deila með ykkur þessari uppskrift!
Fullkomnar Daim smákökur
- 150 g smjör
- 300 g hveiti
- ½ tsk matarsódi
- ½ tsk vanillusykur
- ¼ tsk sjávar salt
- 150 g ljós púðursykur
- 100 g sykur
- 1 egg
- 1 eggjarauða
- 2 msk nýmjólk
- 5 daim súkkulaði (28 g hvert)
Aðferð:
- Bræðið smjörið og leyfið þvi að kólna svolítið.
- Blandið saman hveiti, matarsóda, vanillu og salti í skál.
- Setjið sykurinn, púðursykurinn og smjör saman í hrærivélaskál og hrærið vel saman.
- Bætið eggjunum út í sykurblönduna ásamt mjólkinni og blandið vel saman við.
- Setjið hveitiblönduna út í varlega og hrærið vel saman við.
- Skerið daim súkkulaðið gróft niður og blandið því varlega saman við deigið.
- Setjið deigið í plastfimlu og kælið það í ísskáp í 2 tíma.
- Kveikið á ofninum og stillið á 190°C.
- Skiptið deiginu í kúlur, um það bil 40 g hver, það eiga að myndast um 20-22 kúlur.
- Setjið kúlurnar á smjörpappír og látið vera um það bil 5 cm á milli hverrar kúlu. Þrýstið kúlunum niður þannig þær fletjast svolítið út.
- Bakið í 8-10 mín, takið út úr ofninum þegar þær eru byrjaðar að verða gullnar á litinn og takið þá strax úr ofninum og setjið á grind svo þær byrji að kólna strax.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben.