Það tekur styttri tíma að elda þennan rétt en maður mætti halda og hann er líka mikið einfaldari en hann lítur út fyrir að vera. Kartöflurnar eru settar inn í örbylgju í nokkrar mín sem flýtir eldunarferli þeirra um allavega helming. Bragðið lætur ekki á sér standa og mæli ég með að hafa nóg af avocadó og kóríander með, það er bara svo ótrúlega gott!
Það er auðveldlega hægt að sleppa kjúklingnum í þessum rétt og þá ertu komin með dýrindis grænmetisrétt.
Fylltar fajita kartöflur
- 2 sætar kartöflur
- 2 kjúklingabringur
- Fajita kryddblanda
- 1 dós pinto baunir
- ½ laukur
- 1 paprika
- Rifinn ostur
- 2 avocadó
- Sýrður rjómi
- Lime
- Salt og pipar
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 200°C
- Skerið kartöflurnar þvert í helminga, stingið í þær með gaffli eða hníf og gerið mörg göt.
- Ef þið viljið flýta fyrir eldamennskunni þá vefjiði hverjum kartöflubitanum inn í nokkur lög af eldhúspappír, setjið á disk og inn í örbylgju í 7 mín. Byrjið að útbúa fyllinguna á meðan (skref 4-6). Passið ykkur við að taka eldhúspappírinn af því það myndast mikil gufa frá kartöflunni. Þegar þessar 7 mín eru liðnar setjiði kartöflurnar inn í ofn á meðan þið klárið að útbúa fyllinguna eða þangað til þær eru orðnar mjúkar í gegn.
- Skerið kjúklingabringunar smátt niður, kryddið með fajita kryddblöndu og steikið þangað til kjúklingurinn er eldaður að utan en ekki að innan.
- Skerið laukinn niður og setjið út á pönnuna, steikið.
- Skerið paprikuna niður og setjið út á pönnuna, steikið.
- Takið kartöflurnar út úr ofninum og takið allt innan úr þeim, skiljið hýðið eftir heilt á ofnplötunni. Hrærið innihaldið saman við fajita blönduna og setjið allt saman aftur ofan í kartöfluhýðið. Setjið rifinn ost yfir og aftur inn í ofn þar til osturinn er orðinn gullinn.
- Skerið avocadóið í bita og dreifið því yfir kartöflurnar ásamt sýrða rjómanum og kóríander. Skerið lime í báta og kreystið yfir eftir smekk.
Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben.
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben
Category: