Það er svo ótrúlega skemmtilegt að bera fram tapas! Það myndast oft svo skemmtileg stemming við matarborðið, allir að smakka hitt og þetta, spjalla saman og njóta. Ég er allavega kolfallin tapas aðdáandi og hef alltaf verið.
Það skiptir máli að reyna að skapa smá stemmingu þegar maður er með tapas. Því mæli ég með að skella í sangríu, skreyta borðið og bakkana svolítið með t.d. basil, ávöxtum, berjum eða hverju sem þér dettur í hug og auðvitað hlusta hressa og skemmtilega suðræna tónlist.
Við vorum fjögur í þessari tapas veislu og því miðast uppskriftirnar allar út frá því, við gengum mjög södd frá borði.
Spænskar snittur:
- Baguette brauð
- 7-10 litlir tómatar
- Alioli
- Hráskinka
- Chorizo
- Mangó
- Hvítmynglu ostur, t.d. camembert
- Hvítlauks ólífur (sjá uppskrift hér fyrir neðan)
- Hvítlauks rjómaostur (sjá uppskrift hér fyrir neðan)
- Grillaðar paprikur (sjá uppskrift hér fyrir neðan)
- Basil
Aðferð:
- Skerið baguette brauðið í sneiðar.
- Skerið tómatana í 2 hluta, nuddið innihaldi tómatsins á brauðsneiðarnar.
- Hér megiði láta hugmyndaflugið ráða, smyrjið einhverjar brauðsneiðar með alioli, setjið kjötálegg á brauðsneiðarnar og toppið svo með hráefnunum sem talin eru upp hér fyrir ofan eins og ykkur finnst fallegt.
Fylltar döðlur með hvítlauks rjómaosti:
- Ferskar döðlur
- 200 g rjómaostur
- 1 hvítlauksrif
- ½ tsk þurrkuð steinselja
- Pipar
- Ferskt basil
Aðferð:
- Steinhreinsið döðlurnar og opnið þær langsum.
- Setjið rjómaostinn í skál, kreistið hvítlaukinn í hvítlaukspressu út á rjómaostinn, bætið þurrkuðu steinseljunni út í og hrærið öllu vel saman.
- Fyllið um það bil tsk af rjómaosti inn í hverja döðlu.
- Skreytið með fersku basil og pipar.
Risarækjur:
- 300 g risarækjur
- ¼ tsk chilli flögur
- 1 hvítlauksrif
- salt og pipar
- börkur af ½ sítrónu
- ½ dl sólblómaolía
- 3 grillspjót
Aðferð:
- Kveikið á grillinu og stillið á meðal hita.
- Setjið risarækjurnar í skál, kryddið rækjurnar með chilli flögum, salti og pipar, rífið sítrónubörk yfir, setjið hvítlaukinn í hvítlaukspressu og pressið hvítlaukinn ofan í skálina. Hellið svolítið af bragðlausri olíu yfir, blandið saman og látið marinerast (5-10 mín eða eins lengi og tími gefst).
- Þræðið rækjunum á grillspjót, hafið svolítið pláss fyrir hverja rækju svo þær eldist allar jafnt.
- Grillið í 5 mín eða þangað til rækjurnar hafa eldast í gegn.
Ólífur í hvítlaukslegi:
- 1 krukka grænar steinlausar ólífur
- 1,5 – 2 msk gæða ólífu olía
- 1 hvítlauksrif, gróft niðurskorið
- pipar og örlítið salt
Aðferð:
- Hellið vökvanum af ólífunum, setjið í skál, hellið ólífu olíunni yfir, skerið hvítlaukinn í grófa bita, kryddið með smá pipar og örlítið af salti (má sleppa ef ólífurnar eru mjög saltar) og blandið saman.
- Látið marinerast.
Grillaðir tómatar og paprikur:
- 10 tómatar, meðal stórir
- 2 rauðar paprikur
Aðferð:
- Kveikið á grillinu og stillið á meðal láan hita.
- Skerið paprikurnar um það bil 3-4 cm þykkar sneiðar, setjið grænmetið beint á grillið og grillið í um það bil 7 mín og snúið reglulega þangað til fallegir litlir brunablettir myndast.
Hunangsmelóna með hráskinku:
- 1 umslag hágæða spænsk hráskinka
- ½ hunangs melóna
Aðferð:
- Skerið hunangsmelónuna niður í bita, takið hýðið af.
- Skerið hverja sneið af hráskinku í 3 hluta og vefjið einum hluta utan um 1 melónubita.
Til þess að toppa máltíðina mæli ég með að bera fram dýrindis sangríu með fullt af klökum. Ég mæli mikið með Lolea sangríunni, hún er sú besta sem ég hef smakkað. Flaskan er mjög falleg, rauð með hvítum doppum. Bragðið sjálft er ferskt og ekki of sætt. Skreytið svo sangríuna ykkar með ávöxtum eins og til dæmis appelsínum og sítrónum, en svo er líka hægt að bæta við fleiri ávöxtum eins og ég gerði með jarðaberjum, kirsuberjum og grænu epli.
Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig hana á Instagram @lindaben
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben