Í þessari færslu er að finna auglýsingu, en auglýsingin er af mínu frumkvæði vegna þess hve ánægð ég var með þjónustu fyrirtækisins.
Sonur okkar varð 5 ára í gær! Ég er eiginlega ekki búin að melta það ennþá að ég eigi orðið 5 ára gamalt barn, finnst stundum tíminn líða aðeins of hratt.
Hann er einn mesti legó aðdáandinn á Íslandi er ég alveg viss um, barnið hreinlega lifir fyrir það að legóa og á mjög stórt safn af legói. Í legóinu er það svo Star Wars og Ninjago sem er vinsælast, þannig hefur Star Wars áhuginn smitast yfir í annað.
Hann ákvað að hafa Star Wars þema í afmælinu sínu og var harð ákveðin á því að það ættu að vera Star Wars kallar ofan á kökunni sinni. Einnig bað hann um jarðaberja köku sem mamman var samt ekki alveg viss um hvernig ætti að útfæra þar sem margar jarðaberjakökur geta oft verið ansi væmnar. Að lokum ákvað ég að gera súkkulaðiköku með hindberjakremi, þannig væri hann að fá berjabragðið sem hann elskar og einfaldleikann sem ég kann virkilega að meta í undirbúningum fyrir afmælið. Hindberjakremið er nefninlega pínulítið súrt sem passar alveg ótrúlega vel með súkkulaðibragðinu og alls ekki væmið.
Við ætluðum upphaflega að fara í keilu og hafa meira kósý á afmælinu sjálfu (9. okt) og hafa svo veilsuna á laugardeginum. En á mánudagsmorgninum hætti minn maður við það plan og var harð ákveðinn í því að hafa það á þriðjudeginum!
Ég gef mér yfirleitt nokkra daga til að undirbúa afmæli, geri smávegis á hverjum degi, næ þannig að gera mjög flott afmæli án þess að þurfa að hafa neitt rosalega mikið fyrir hlutunum. En þar sem hann varð svo innilega sár og leiður yfir því að hafa afmælið á laugardeginum ákváðum við að það væri ekki hægt að gera honum lífið svona leitt og leyfðum honum því að hafa afmælisveisluna á afmælisdeginum sínum og því upphófst alveg svakaleg vinna sem þurfti að gera á einum sólahring!
Þegar ég sá að þetta yrði mikið stress að undirbúa afmælið ákvað ég að reyna hafa allt sem einfaldast, án þess að það komi niður á útliti og gæðum! Ég er mjög metnaðarfull þegar kemur að afmælum, mér finnst það alveg ótrúlega gaman að halda fallegar veislur en það getur verið mikil vinna líka. Ég fékk því alla fjölskylduna til að aðstoða mig, fékk meðal annars gullfallegt heimili systir minnar lánað undir veisluna þar sem við búum ekki svo vel að geta haldið veislu heima hjá okkur. Heimilið hennar er glæsilegt, bjart og stílhreint eins og sjá má á myndunum. Mér finnst ég ansi heppin að eiga svona yndislega systir sem er alltaf til í að leggja fram hjálparhönd ef eitthvað er, eins og með aðra fjölskyldumeðlimi að sjálfsögðu sem hjálpuðu mikið og hefði þetta aldrei tekist nema afþví að allir hjálpuðust að.
Það fyrsta sem ég gerði hvað varðar undirbúning var gera to do lista og hringja í partyvorur.is. Ég spurði hana í Partyvörum hvort hún gæti reddað fyrir mig skreytingum fyrir morgundaginn sem reyndist vera ekkert mál. Hún var svo ótrúlega almennileg og fannst ekkert sjálfsagðara en að aðstoða mig með svona stuttum fyrirvara. Hún bað mig um að senda sér myndir í emaili af þemanu og hvernig ég sá fyrir mér skreytingarnar. Síðan fór ég til hennar tveimur tímum seinna og náði í allar skreytingarnar þar sem allt var tilbúið! Það hentaði alveg fullkomlega þar sem ég kláraði að versla allt inn fyrir veisluna í millitíðinni og kláraði því allar útréttingar fyrir afmælið á tveimur tímum! Þar sem ég var svo ótrúlega ánægð með þjónustuna hennar og myndi mæla 100% með þessari þjónustu við alla sem ég þekki, bauð ég henni samstarf og þess vegna finnið þið linka inn á síðuna hennar í þessari færslu.
Ég ákvað að hafa blöðruborða yfir veitingaborðinu, fannst hann gera alveg ótrúlega mikið! Ég fékk nokkrar mismunandi blöðrur frá Partývörum, borða til að festa blöðrurnar í, tvær litlar pumpur og króka til að hengja lengjuna upp á vegginn. Það var ótrúlega einfalt að smella blöðruborðanum upp. Pumpurnar gerðu það að verkum að það var ekkert mál að blása blöðrurnar upp. Það reyndist best að setja nokkrar blöðrur á víð og dreif um borðann, festa hann upp á vegginn og klára svo að setja blöðrurnar í borðann þegar hann var kominn á vegginn. Ég tók myndir og kertastjaka af veggnum svo það voru naglar fyrir á veggnum svo ég þurfti ekki að nota krókana sjálf en notaði venjulegt límband til þess að festa borðann betur á vegginn.
Ég fékk svo svart hvíta pappa diska, pappa glös, pappa rör, popp box, fánalegju, kögrið framan á veisluborðið, 5 blöðruna og stóru svörtu blöðruna frá Partývörum líka.
Mér persónulega finnst fallegra að velja nokkra liti (ef hægt er að telja svartan og hvítan sem lit þetta skiptið) og fylgja þeim í gegnum þemað í staðan fyrir sjálfar fígúrurnar. Til þess svo að heimfæra svarta og hvíta litinn inn í Star Wars þemað þá keypti ég Star Wars aukahluti. Ég keypti þrjú geislasverð í mismunandi litum og stillti upp á borðið ásamt nokkrum öðrum smáhlutum. Mér fannst svarta stóra blaðran með kögrinu alveg smell passa inn í þemað og var alveg rosalega Star Wars-leg. Ég átti svo stjörnu jólaljós sem mér fannst smellpassa inn í þemað.
Það sem við buðum upp á í afmælinu miðaðist allt að því að það tæki sem stystan tíma í undirbúningi en væri samt gott og allir væru ánægðir:
- Pulsur með öllu helsta meðlætinu, sumar voru beikonvafðar og auðvitað var kartöflusalat með
- Star Wars drip súkkulaðikaka með hindberjafyllingu
- Star Wars sykurpúðar
- Hvítar rice crispies kökur
- Popp
- Gjafakassar með nammi sem börnin fengu með sér heim eftir afmælið
- Ostabakki með þremur mismunandi ostum, ritz kex og sultu
- Salt stangir og voga ídýfa
Star Wars sykurpúðar:
- Sykurpúðar
- 20 cm kökupinnar
- Svartur matarlitar penni
Aðferð:
- Stingið kökupinnunum niður í sykurpúðana og teiknið andlit á sykurpúðana eins og á myndinni, smá föndur en annars afar einfalt
Hvítar rice crispies kökur:
- 70 g smjör
- 330 g sykurpúðar
- 240 g rice crispies
- 100 g hvítt súkkulaði
- Svart kökuskraut
Aðferð:
- Setjið rice crispies í stóra skál.
- Setjið smjörpappír ofan í ofnskúffu og hafið aðra jafn stóra örk við hendina.
- Bræðið smjörið og sykurpúðana í potti á vægum hita.
- Hellið sykurpúðablöndunni ofan í skálina með rice crispiesinu og blandið hratt saman (ef það gengur illa er sniðugt að setja smá olíu á hendurnar og blanda saman með höndunum).
- Hellið blöndunni á ofnskúffuna og setjið smjörpappír yfir, fletjið svo út með kökukefli þangað til blandan fyllir út ofnskúffuna. Setjið ofnskúffuna svo í frysti í um það bil 10 mín (líka hægt að láta þetta stirna upp á borði í klukkutíma ef ekki er pláss í frysti). Skerið kökuna í u.þ.b. 4×4 kassa.
- Bræðið hvítt súkkulaði og dreifið því yfir kökurnar ásamt svörtu kökuskrauti.
Star Wars drip súkkulaðikaka með hindberjafyllingu:
- 7 dl sykur
- 350 g smjör
- 4 egg við stofuhita
- 9 dl hveiti
- 2 tsk matarsódi
- 2 dl kakó
- 6 tsk vanillusykur
- 2 tsk salt
- 2 dl kalt vatn
- 5 dl súrmjólk
Aðferð:
- Smjör og sykur er þeytt vel saman.
- Eggjum við stofuhita bætt saman við einu í einu. (Ef eggin eru köld látið þau þá liggja í volgu vatni í 5 mín fyrst)
- Blandið þurrefnunum saman við í aðra skál og sigtið.
- Í aðra skál blandiði saman súrmjólk og vatni.
- Setjið til skiptis þurrefna og súrmjólkur vatnsblönduna út í eggjablönduna og blandið saman varlega.
- Smyrjið 20 cm form með smjöri, vigtið deigið og skiptið deiginu í fjóra jafna hluta ofan í formin. (ath. ég á aðeins tvö 20 cm form og þurfti því að baka kökuna í tveimur hollum, það er því í góðu lagi þó svo að tveir hlutar af deiginu þurfi að bíða svolítið upp á borði á meðan beðið er eftir formunum út úr ofninum, munið bara að þrífa formin á milli og smyrja þau upp á nýtt.
- Kakan bökuð í miðjum ofni við 180°C með blæstri í um það bil 40 mín. Tíminn er mismunandi og því þarf að fylgjast vel með kökunni inn í ofninum. Góð leið til að sjá hvort kakan sé tilbúin er að hrista formið smávegis og ef kakan virðist fljótandi undir þarf hún lengri tíma en ef hún virðist stinn þá stingiði prjón í kökuna og ef ekkert deig kemur með þá er hún tilbúin.
- Kælið botnana vel, skerið þá þvert í sundur til þess að fá fleiri lög í kökuna. Ath. þessi uppskrift gefur átta hálfa botna en aðeins eru notaðir sex, það er því í lagi að mistakast.
Hindberja smjörkrem:
- 500 g smjör
- 8oo g flórsykur
- 450 g frosin hindber
Aðferð:
- Þeytið smjörið vel þangað til það er létt og loftmikið.
- Setjið flórsykurinn út í smjörið og haldið áfram að þeyta alveg rosalega vel.
- Setjið frosnu hindberjin í pott og hitið þau að suðu á sama tíma og þau eru kramin vel. Kremjið soðnu berin í gegnum sigti og passið að fræin fara ekki í gegnum sigtið. Leyfið safanum að kólna svolítið, hægt að setja skálina sem safinn er í ofan í ísbað (ekki setja klaka ofan í safann því hann mun þynna út berjasafann). Ísbað er gert með því að setja klaka og kalt vatn í stóra skál og setja minni skálina ofan í, án þess að láta vatn renna í minni skálina.
- Setjið safann svo ofan í skálina með smörkreminu, blandið fyrst hægt saman svo það skvettist ekki allt út um allt, aukið svo hraðann og hrærið mjög vel saman við.
- Smyrjið kremi á hvern kökubotn og raðið saman sex lögum. Ath. að ekki þarf að klára kremið.
Hvítt smjörkrem:
- 500 g smjör
- 700 g flórsykur
Aðferð:
- Þeytið smjörið vel þangað til það er létt og loftmikið.
- Setjið flórsykurinn út í smjörið og haldið áfram að þeyta alveg rosalega vel þangað til kremið verður hvítt.
- Setjið allt kremið á kökuna, ath að það verður mjög þykkt lag af kremi á allri kökunni, það er gert til þess að minnka líkur á að kökumylnsnur og bleikt krem sjáist á yfirborðinu. Svo er kremið minnkað hægt og rólega á kökunni á sama tíma og slétt er úr kreminu.
Svart drip
- Start Candy Melt
- 3-4 msk bragðlítil olía
Aðferð:
- Setjið candy meltið í skál og bræðið í örbylgju, gott að byrja á 15 sek í einu og hræra á milli því maður vill alls ekki hita það of mikið.
- Þegar allir molarnir eru bráðnaðir, bætið þá 1 msk af olíu út í í einu og hrærið vel. Það er gert til þess að þynna blönduna, en maður þarf að þynna ekki of mikið. Til þess að athuga hvort maður sé með rétta þykkt er gott að setja glas á disk og snúa botninum á glasinu upp. Setjið candy melt á botninn á glasinu og ef það lekur niður glasið eins og þú vilt að það leki niður kökuna þá er blandan tilbúin.
- Notið skeið til þess að setja candy meltið á brún kökunar og látið leka mismikið. Hellið svo candy melt yfir miðju kökunnar og sléttið svolítið úr ef þarf. Setjið kökuna í 5 mín inn í ísskáp til þess að herða candy meltið.
Ef þú prófar þessa uppskrift, þá þætti mér svo vænt um að heyra hvernig smakkast! Skildu endilega eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ég sýndi frá öllu ferlinu á Instagram í story en ég hef núna sett allan undirbúninginn í highlights á Instagraminu mínu @lindaben sem þú getur skoðað og fengið meiri innsýn inn í ferlið.
Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!
Ykkar, Linda Ben