Þessi dressing er sönnun þess að einfalt og fljótlegt er oft best. Einfaldleikinn skín í gegn og hvert einasta hráefni fær að njóta sín til fulls. Þetta er fljótleg dressing sem hver sem er ætti að geta leikið eftir á innan við 5 mín.
Ég mæli með að blanda saman majónesi og 18% sýrðum rjóma, það er ótrúlegt hvað það passar vel að blanda þessum sósugrunnum saman og mæli ég ekki með því að hafa þetta neitt öðruvísi (mitt persónulega mat, ykkar er valið að sjálfsögðu). Majónesið kemur með mýktina og fyllinguna en sýrði rjóminn með fersk og léttleikan án þess að taka neitt í burtu.
Æðisleg heimagerð Alioli dressing
- 1 lítil dós majónes
- 1 dós 18% sýrður rjómi
- 2 hvítlauksgeirar
- Börkur af 1 sítrónu
- Safi úr ½ sítrónu
- ½ tsk gróft sjávarsalt
Aðferð:
- Blandið saman sýrðum rjóma og majónesi í skál.
- Pressið hvítlaukinn með hvítlaukspressu ofan í skálina.
- Rífið börkinn af sítrónu með fínu rifjárni, skerið sítrónuna í tvennt og kreistið safann úr öðrum helmingnum ofan í skálina, bætið við smá salti og blandið öllu saman.
Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu hana á Instagram með #lindulostæti
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben.