Í þessar bollakökur notaði ég möndlumjöl sem gerir þær léttari en ský, en þess vegna eru þær líka alveg glúteinlausar.
Að bíta í þessar kökur er guðdómleg upplifun! Ljúfa rjómaostakremið hylur bláberjasultu dropa en geymir líka létt ristuðu möndluflögurnar og fersku bláberin.
Ef þú ert að leita af einföldum og bragðgóðum bollakökum þá er þetta uppskrift sem þér mun líka. Kökurnar sjálfar innihalda mjög fá innihaldsefni, aðeins fimm, og það er auðvelt að skella þessu saman. Þarf enga sérstaka hæfileika til þess að gera þær gullfallegar þer sem þær eru mjög frjálslegar í útliti.
Bláberjasultu fylltar glúteinlausar bollakökur sem eru léttari en ský!
- 6 egg
- 2 ¼ dl sykur
- 7 dl möndlumjöl
- 1 ½ tsk lyftiduft
- ½ tsk salt
- Bláberjasulta
- 200 g smjör við stofuhita
- 200 g rjómaostur við stofuhita
- 400 g flórsykur
- 1 dl möndluflögur
- u.þ.b. 200 g fersk bláber
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 165°C.
- Þeytið egg og sykur þangað til blandan verður ljós og mjög loftmikil.
- Blandið saman möndlumjöli, lyftidufti og salti. Sigtið út í eggjablönduna og blandið varlega saman við með sleikju.
- Setjið pappírs bollakökuform í bollakökuálbakka. Setjið deigið í formin, fyllið það upp 2/3. Bakið kökurnar inn í ofni um það bil 20 mín.
- Þeytið saman smjör og rjómaost þangað til blandan verður létt og loftmikil. Bætið flórsykrinum út í og blandið vel saman.
- Ristið möndluflögur á pönnu þangað til þær eru byrjaðar að brúnast vel.
- Kælið kökurnar og takið þær úr álbakkanum.
- Setjið 1 tsk af bláberjasultu á hverja köku og setjið eina góða matskeið af kremi yfir sultuna. Dreifið úr kreminu með hníf án þess að hreyfa of mikið við sultunni. Setjið u.þ.b. 1 tsk af möndluflögum í miðjuna á kreminu og setjið svo þrjú bláber yfir.
Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!
Njóttu vel!
Þín, Linda Ben