Þessa köku ættum við öll að þekkja! Þessi kaka hefur verið bökuð á íslenskum heimilum í fjölmarga áratugi og eflaust lengur en það. Hún gengur undir ýmsum nöfnum eins og til dæmis randalína og lagkaka en ég hef yfirleitt kallað hana lagterta.
Þessi uppskrift kemur frá ömmu mannsins míns, henni Jóhönnu, en hún hefur bakað þessa köku öll hennar jól og er það ein helsta jóla minning mannsins míns að fá sér lagtertu og heitt súkkulaði á jóladag.
Þar sem þetta er mjög gömul uppskrift eru skiptar skoðanir á því hvaða aðferð sé best og hvernig form skal nota. Gamla aðferðin segir að það eigi að setja öll innihaldsefni ofan i skálina í einu og hræra svo öllu saman, en ég ákvað að gera eins og vanalega, smjör+sykur, svo egg, svo þurrefnin og mjólk.
Einnig er mjög mismunandi hvaða form eru notuð, sumir nota hringlaga 26 cm form, sumir nota ofnskúffu og allt þar á milli. Ég notaði 25×25 cm sílikon form og bakaði einn botn í einu inn í ofninum.
Brúna lagtertan hennar ömmu Jóhönnu
- 250 g smjör
- 250 g sykur
- 2 egg
- 2 msk sýróp
- 500 g hveiti
- 1 msk kakó
- 1 tsk kanill
- 3 tsk lyftiduft
- 3 msk mjólk
Krem:
- 250 g smjör
- 500 g flórsykur
- 1 dl rjómi
- Rabbabarasulta
Aðferð
- Kveikið á ofbinum og stillið á 175°C, undir og yfir hita.
- Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst, setjið eggin út æi, eitt æi einu og hrærið á milli. Setjið sýrópið út í og hrærið saman við.
- Blandið saman hveiti, kakói, kanil og lyftidufti. Hellið því svo út í eggjablönduna og hrærið varlega þar til allt hefur blandast vel saman, bætið svo mjólkinni út í og hrærið saman.
- Skiptið deiginu í 4 hluta, mér finnst best að vigta deigið og deila í 4 hluta. Fletjið hvern hluta út á milli tveggja smjörpappíra svo það passi í formið, ég notaði 25×25 cm form en það er líka hægt að nota hringlaga form ef það hentar betur. Klippið út smjörpappír svo hann passi fullkomlega í botninn á forminu og leggið deigið í formið, bakið í 10-15 mín. Endurtakið fyrir restina af deiginu.
- Hrærið smjörið þar til það er orðið létt og loftmikið, bætið þá flórsykrinum útí og þeytið aftur þar til létt og loftmikið. Hellið þá rjómanum út í og þeytið þar til kremið verður silki mjúkt, létt og loftmikið.
- Setjið fyrsta kökubotninn á kökudisk, smyrjið góðu lagi af kremi á botninn og leggið annan botn ofan á. Smyrjið ágætlega þykku lagi af rabbabarasultu ofan á hann og setjið svo annan botn yfir. Smyrjið smjörkremi ofan á hann og leggið svo seinasta botninn ofan á. Þrýstið kökunni smávegis saman og skerið kantana af ef vilji er fyrir hendi að gera það.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben