Þetta er útgáfa af uppskrift sem hefur verið í fjölskyldunni frá því að ég man eftir mér. Til að mynda hefur mamma gert þennan ís með tobleróni öll jól frá því að ég var lítil og gerir enn.
Hér má sjá upprunalegu uppskriftina sem mamma mín skrifaði í uppskriftarbókina sína fyrir alltof mörgum árum síðan. Eins og alvöru uppskriftarbækur eiga að vera vantar ekki súkkulaði og rjómasletturnar á síðurnar, allt eins og það á að vera og ein besta sönnun þess að uppskriftin er góð! Sem barn var ég að sjálfsögðu ekki langt undan þegar mamma mín var að skella í þennan ís (eða gera eitthvað annað í eldhúsinu) og fylgdist grant með. Það kom þó líka fyrir að ég fékk að myndskreyta uppskriftarbókina en ég leyfi einmitt einni slíkri skreytingu að fylgja með, enda vön að sjá þessar síður saman í bókinni.
Á öðrum hátíðsdögum eins og til dæmis á páskunum er skemmtilegt að leika sér svolítið með þessa hefðbundnu uppskrift og prófa eitthvað nýtt. Ég minnkaði örlítið sykurinn í uppskriftinni þar sem hann kemur í uppskriftina í formi nammisins.
Að þessu sinni setti ég Dumle og Tyrkisk Peber inn í ísinn, mér finnst ég varla þurfa að taka það fram að þetta reyndist vera alveg ótrúlega góð blanda sem þið hreinlega verðið að prófa!!
Mér finnst best að hafa dumle bitana mjög litla, en til þess að ná að skera þá svona litla set ég þá inn í ísskáp í smá stund og þá er miklu auðveldara að skera þá, það þarf svo að taka bitana í sundur um leið og þeir eru skornir ef þær ætla að klessast eitthvað saman.
Tyrkisk peberið er best að mala létt, þannig að það er ennþá svolítið að kögglum í blöndunni. Ég setti 1 dl af brjóstsykrum í Nutribullet glas og setti í gang í aðeins 3-4 sek, þannig náði ég grófmalaðri blöndu.
Dumle snackið skar ég nokkuð gróft niður og notaði til þess að skreyta ísinn.
Ísinn bragðaðist hreint út sagt stórkostlega!
Heimalagaður hátíðar ís með Dumle og Tyrkisk Peber
- 6 eggjarauður
- 1 dl púðursykur
- 500 ml rjómi, létt þeyttur
- 1 poki Dumle karamellur, smátt saxaðar (120 g)
- 1 dl Tyrkisk Peber
Sósa og skreyting
- 1 poki Dumle karamellur (120 g)
- 2 msk rjómi
- 1 poki Dumle snack (100 g)
Aðferð:
- Setjið dumle karamellurnar inn í ísskáp.
- Þeytið rjómann og geymið.
- Þeytið eggjarauðurnar og púðursykurinn mjög vel saman.
- Blandið rjómanum varlega saman við eggjarauðu blönduna með sleikju.
- Skerið kældu dumle karamellurnar smátt niður, myljið 1 dl af tyrkisk peber í blandara og blandið saman við ísinn varlega með sleikju.
- Hellið ísnum í form og setjið í frystinn, það er best að frysta ísinn í minnst 1 sólahring.
- Útbúið sósuna með því að bræða karamellurnar yfir vatnsbaði, bæta rjómanum svo út í og hræra svo þangað til þykk karamellusósa hefur myndast.
- Skerið dumle snack smátt niður.
- Setjið ísinn á kökudisk og fjarlægið formið, hellið sósunni yfir ísinn og dreifið dumle snackinu yfir.
Ef þú prófar þessa uppskrift, láttu mig þá endilega vita! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á myndinni á Instagram @lindaben
Ýttu hér til að fylgjast með á Instagram!
Njótið vel!
Ykkar, Linda Ben
Þessi færsla er kostuð.