Hér höfum við einstaklega ljúffenga bleikju sem er bökuð innpökkuð með þykku hvítlaukssmjöri sem myndar svakalega góðan kryddhjúp á bleikjunni. Hún er svo borin fram með sítrónubökuðum aspas, kaldri hvítlaukssósu og kartöflusmælki.
Þó svo að uppskriftin líti út fyrir að vera löng til að byrja með, þá sjáið þið fljótt þegar þið lesið uppskriftina að þetta eru mikið til sömu innihaldsefnin notuð aftur og aftur í uppskriftinni sem gerir það að verkum að undirbúningstíminn er frekar stuttur. Maður byrjar á því að gerra kartöflurnar, svo gerir maður bleikjuna og aspasinn, setur það í ofninn og á meðan það bakast gerir maður sósuna.
Þessi réttur er á vikumatseðli Einn, tveir og elda þessa vikuna og mæli ég með að kíkja á hann, það er svo þægilegt að kaupa allar kvöldmáltíðir vikunnar hjá Einn, tveir og elda, fá sent heim og þurfa aldrei að velta fyrir sér spurningunni “hvað ætti að vera í kvöldmatinn?” þá vikuna.
Þú getur skoðað réttina sem eru í boði þessa vikuna hér.
Hvítlaukssmjörshjúpuð bleikja með ljúffengu meðlæti
Kartöflubátar
- 800 g kartöflur (smælki helst eða aðrar smágerðar kartöflur)
- 2 msk steikingarolía
- Salt
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, undir og yfir hita.
- Skolið kartöflurnar og skerið þær í bitastóra bita.
- Raðið á smjörpappírsklædda ofnplötu þannig að þær séu vel dreifðar og engar klessist saman.
- Kryddið með salti.
- Setjið hvítauksgeirana sem eiga að vera í sósunni á ofnplötuna í eitt hornið.
- Bakið í 20 mín, takið hvítlauksgeirana út og hrærið í, haldið svo áfram að baka kartöflurnar í u.þ.b. 20 mín eða þar til þær eru bakaðar í gegn.
Sósa
- 4 hvítlauksgeirar
- 100 g Salatostur frá Örnu Mjólkurvörum
- 3-4 msk majónes
- Salt og pipar
- Safi og börkur af ½ sítrónu
Aðferð:
- Bakið hvítlauksgeirana inn í ofni í 20 mín með kartöflubátunum. Stappið þá vel með gaffli þar til þeir eru orðnir að mauki. Setjið í skál.
- Setjið salatostinn í skálina (hellið olíunni frá) og stappið ostinn saman við hvítlauksgeirana, bætið majónesinu í skálina og blandið saman.
- Rífið sítrónubörkinn af 1/2 sítrónunni og kreystið safann úr helmingnum ofan í skálina, blandið saman.
- Kryddið til með salti og pipar.
Bleikja
- 800 g bleikja
- 4 msk mjúkt smjör
- 1 1/2 tsk þurrkað oreganó
- 1/2 tsk þurrkað rósmarín
- 1 tsk þurrkað basil
- U.þ.b. 1 msk ferskt timjan
- 4 hvítlauksgeirar
- 1/2 dl rifinn parmesan ostur
- Safi úr 1/2 sítrónu
Aðferð:
- Takið stóran bút af álpappír og leggið á borðið, leggið bleikjuflökin á álpappírinn. Passið að álpappírinn þarf að vera það stór að hægt sé að loka bleikjunni inn í álpappírnum.
- Setjið mjúkt smjörið í skál og bætið út í skálina oreganó, rósmaríni, basil og fersku timjani.
- Rífið hvítlauksgeirana og parmesaninn út í og kreystið safann úr 1/2 sítrónu út á. Blandið saman þar til verður að þykku mauki.
- Smyrjið smjörblöndunni ofan á bleikjuflökin (gott að nota gaffal eða pensil í það), lokið bleikjuna vel inn í álpappírnum.
- Bakið í u.þ.b. 20-25 mín eða þar til bleikjan er elduð í gegn.
Aspas
- 300 g aspas
- U.þ.b. 1 msk ólífu olía
- Börkur af 1/2 sítrónu
- U.þ.b. 1 msk rifinn parmesan
- Salt og pipar
Aðferð:
- Skolið aspasinn og brjótið harðapartinn neðan af stilkunum, raðið í eldfastmót.
- Setjið olífu olíu yfir, rífið sítrónubörk yfir og parmesan. Kryddið með salti og pipar.
- Bakið inn í ofni í 20 mín.
Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben
Njótið vel!
Ykkar